Funda með ríkislögreglustjóra vegna nýnasistavefsíðu

Bandarískir þjóðernissinnar með fána sína.
Bandarískir þjóðernissinnar með fána sína. AFP

Frétta- og umræðuvefsíðan Daily Stormer er komin í loftið á íslensku léni en vefsíðan er vettvangur bandarískra nýnasista. mbl.is greindi frá því á mánudag að lénið hefði verið stofnað en á þeim tíma var vefurinn ekki aðgengilegur.

Funda með ríkislögreglustjóra 

„ISNIC hefur ekki beinlínis í hyggju að bregðast við skráningu lénsins, enda óhægt um vik. Hins vegar höfum við sams konar áhyggjur og margir aðrir um að efnið á vefnum, sem lénið vísar til, brjóti í bága við lög og geti skaðað ímynd .is-lénsins. ISNIC á fund með ríkislögreglustjóra næsta miðvikudag til þess að fá hjá honum ráðgjöf um þetta og fleiri svipuð mál.“ Þetta kemur fram í skriflegu svari Jens Péturs Jensen, framkvæmdastjóra ISNIC. 

Ástæðan fyrir því að ISNIC er ekki í stöðu til að loka síðunni er að fyrirtækið er „registry“ en ekki „registrar“ sem er almennt hýsingarfyrirtæki en aðeins þannig fyrirtæki geta fjarlægt efni af netinu. Hýsingarfyrirtæki hafa einmitt lokað fyrir umrædda frétta- og umræðuvefsíðu Daily Stormer áður. 

Síðunni oft verið lokað

Nú er vefsíðan hins vegar komin í loftið, en Daily Stormer hefur ítrekað reynt að opna mismunandi lén eftir að bandaríska léninu þeirra var lokað, en það var gert í kjölfar þess að vefsíðan birti færslu þar sem hæðst var að fórnarlambi átakanna í Charlottesville í ágúst síðastliðnum. Heather Heyer, sem var 32 ára einhleyp og barnlaus kona, lést þegar ökumaður keyrði á hóp fólks sem mótmælti boðskap hvítra þjóðernissinna í borginni. Í færslu Andrew Anglin, framkvæmdastjóra Daily Stormer, er Heyer meðal annars kölluð feit drusla og byrði á samfélaginu vegna þess að hún var einhleyp og barnlaus. Enn fremur er því haldið fram að ökumaðurinn hafi gert samfélaginu greiða.

Anglin fagnar því í nokkrum færslum að Daily Stormer sé loks komin í loftið á ný. Hann kveður stjórnendur hafa valið íslenskt lén vegna þess að ekki sé hægt að taka lénið af þeim nema með ákvörðun Alþingis. Þó býst hann við því að vefsíðan verði tekin niður á endanum eins og annars staðar. Hann segir einu vefsíðuna sem nokkurn tíma hafi verið tekin niður á Íslandi sé vefsíða samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki og að úrskurð Alþingis hafi þurft til en að talsmenn tjáningarfrelsis hafi mótmælt lokun vefsíðunnar.

Fullyrðing Anglin um aðkomu Alþingis að lokun vefsíðu samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki er röng, því það var stjórn Internets á Íslandi, ISNIC, sem tók ákvörðunina um að loka vefsíðunni árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert