Gagnrýndi kjarnorkutilraunir N-Kóreu

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lýsti yfir áhyggjum af aðstæðum Rohingya …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lýsti yfir áhyggjum af aðstæðum Rohingya í Búrma á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, gagnrýndi eldflauga- og kjarnavopnatilraunir Norður-Kóreustjórnar og efnavopnaárásir Sýrlandsstjórnar í ávarpi sínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Þá lýsti Guðlaugur Þór yfir áhyggjum af aðstæðum rohingja í Búrma og lagði áherslu á virðingu fyrir mannréttindum og valdeflingu kvenna á öllum sviðum samfélagsins.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu, sem segir ráðherra einnig hafa gert áhrif loftslagsbreytinga að umtalsefni, auk þess sem hann hafi áréttað skuldbindingar Íslands um að standa við Parísarsamninginn. Þá sagði hann loftslagsbreytingar mjög sýnilegar á norðurslóðum, en minnti á að áhrifin næðu til alls heimsins.

„Þær áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir krefjast alþjóðlegrar samvinnu. Það á jafnt við um aðgerðir gegn loftlagsbreytingum og hryðjuverkum og baráttuna fyrir mannréttindum og gegn fátækt. Það hefur því aldrei verið mikilvægara að standa vörð um Sameinuðu þjóðirnar og gildi þeirra, og þar hefur Ísland ávallt hlutverki að gegna,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í yfirlýsingunni.

Helstu áskoranir okkar tíma væru til komnar af mannavöldum og því væru vandaðir stjórnunarhættir og frjáls viðskipti forsenda framfara. Benti ráðherra á gildi fríverslunar í baráttunni gegn fátækt, og sögu Íslands í því samhengi. „Á hverju ári komum við saman hér í höfuðborg frjálsrar verslunar og ræðum mikilvægi þess að binda endi á fátækt í veröldinni. Við getum endalaust rætt og lofað, en getum við fylgt orðum með gjörðum?“ spurði Guðlaugur Þór í ræðu sinni og minnti jafnframt á bágbornar aðstæður flóttafólks. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert