Sagði konur með fjórðungsheila og var vikið frá störfum

Sagði Hijri að konur, sem venjulega hefðu „helming heilastærðar“ karla …
Sagði Hijri að konur, sem venjulega hefðu „helming heilastærðar“ karla enduðu með fjórðungsheila þegar þær færu í búðir og þess vegna yrði að banna þeim að keyra. AFP

Sádi-arabískum klerk, sem sagði að ekki ætti að heimila konum að keyra þar sem að þær hefðu aðeins „fjórðung“ af heila karlmanna, hefur nú verið bannað að predika.

Klerkinum Saad al-Hijri var vikið frá öllum trúarlegum störfum í héraðinu Asir í suðurhluta Sádi-Arabíu eftir að ummæli hans komust í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Sagði hann, í myndbandi sem farið hefur víða, að konur, sem venjulega hefðu „helming heilastærðar“ karla enduðu með fjórðungsheila þegar þær færu í búðir og þess vegna yrði að banna þeim að keyra.

Konum í Sádi-Arabíu er ekki heimilt að keyra og eins er þeim bannað að umgangast karla sem eru þeim óskyldir og eru skrifstofufyrirtæki og veitingastaðir í landinu því með aðskilin rými fyrir karla og konur.

Ummæli Hijris vöku mikla reiði á samfélagsmiðlum og hafa aðgerðarsinnar hlynntir auknum kvenréttindum krafist þess að hann verði látinn víkja, en íhaldssamir stuðningsmenn klerksins hafa einnig látið í sér heyra.

Sjálfur sagði Hijri í samtali við vefmiðilinn Sabq að sér hefði orðið fótaskortur á tungunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert