Stjórnarráðið lýst upp í fánalitunum

Það vakti mikla athygli vegfarenda þegar stjórnarráðið var lýst upp …
Það vakti mikla athygli vegfarenda þegar stjórnarráðið var lýst upp í fánalitunum. Ljósmynd/Verkís

Stjórnarráð Íslands hefur nú fengið á sig nýja lýsingu, sem hægt er að hafa í íslensku fánalitunum. Það er lýsingarteymi Verkís sem á heiðurinn af hönnun nýju lýsingarinnar sem nær yfir allar hliðar byggingarinnar, utan bakhliðarinnar.

Þá hafa stytturnar af þeim Kristjáni IX og Hannesi Hafstein einnig fengið lýsingu, sem og göngustígurinn við bygginguna.

Segir á vef Verkís að markmiðið með hönnuninni sé að sýna bygginguna, sem reis á árunum 1765 – 1770, með reisn en jafnframt að bera virðingu fyrir arkitektúr hennar.

Nýju lýsingunni er stýrt í gegnum app í spjaldtölvu og er með því hægt að stýra birtustyrk og lit hvers og eins ljóss eða öllum ljósunum saman. Með því móti er hægt að lýsa bygginguna upp við ýmis tilefni og þegar lýsingarteymi Verkís var við prófanir í síðustu viku voru ljósin meðal annars látin mynda íslenska fánann sem vakti mikla athygli þeirra sem áttu leið hjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert