Tveir staðnir að reykingum um borð

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. Ljósmynd/Isavia

Tveir flugfarþegar urðu síðastliðinn sólarhring uppvísir að því að reykja um borð í flugvélum sem voru á leið til landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Það var í gærmorgun sem fyrra tilvikið kom upp. Sá ætlaði að halda áfram för seinni til Berlínar en komið var í veg fyrir það, vegna athæfisins. Fram kemur að flugstjóri vélarinnar hyggist kæra manninn fyrir hönd flugfélagsins, en nafn þess er ekki nefnt í tilkynningu lögreglu.

Hinn farþeginn var gripinn við reykingar um borð í vél í morgun. Lögregla tók að sögn af honum skýrslu og fram kemur að maðurinn geti átt von á „alvarlegum eftirmálum“.

Fram kemur í sömu tilkynningu að annar maður hafi framvísað „breytifölsuðum“ skilríkjum við komu til landsins. Hann var að sögn handtekinn og færður á lögreglustöð til skýrslutöku.

Loks kemur fram að veikur maður hafi verið um borð í flugvél sem var á leið frá Glasgow í Skotlandi til Newark í New Jersey. Vélin hafi þess vegna lent á Keflavíkurflugvelli og maðurinn var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Ekkert kemur fram um líðan hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert