Kleif öll hæstu fjöll heims á níu ára tímabili

Spænska fjallgöngkukonan Edurne Pasaban og Vilborg Arna Gissurardóttir.
Spænska fjallgöngkukonan Edurne Pasaban og Vilborg Arna Gissurardóttir. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Spænska fjallgöngukonan Edurne Pasaban hlaut í dag Landkönnunarverðlaun Leifs Eiríkssonar við hátíðlega athöfn á Húsavík. Það var fjallgöngugarpurinn Vilborg Arna Gissurardóttir sem afhenti Padaban verðlaunin en Babita Sharma, fréttaþula hjá BBC, kynnti þær á svið. 

Pasaban er fædd í Tolosa á Spáni árið 1973 og vann þau afrek á árunum 2001 til 2010 að klífa öll fjöll heims yfir 8 þúsund metrum en þau eru 14 talsins. Hún er fyrst kvenna í heiminum til að vinna þetta afrek en Pasaban er oft kölluð fjalladrottningin fyrir afrek sín að því er segir í tilkynningu frá aðstandendum Landkönnunarverðlaunanna.

Árni Sigurbjarnarson hjá Norðursiglingu afhenti hinum ítalska Alex Bellini verðlaunin.
Árni Sigurbjarnarson hjá Norðursiglingu afhenti hinum ítalska Alex Bellini verðlaunin. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson


Þá hlaut hinn ítalski Alex Bellini verðlaun fyrir afrek sín sem ungur landkönnuður en hann hefur róið einn yfir 35 þúsund kílómetra og gengið um tvö þúsund kílómetra um heimskautasvæðin. Árið 2006 fór hann á handaflinu yfir Atlantshafið og var einn á bátnum í 227 daga. Mörg sinna stærstu afreka vann Bellini áður en hann náði 30 ára aldri.

Loks var Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur verðlaunaður á hátíðinni fyrir starf sitt við eldfjallafræði og við þekkingarmiðlun en hann hefur vakið athygli víða um veröld fyrir skrif sín.

Verðlaunin eru afhent í tengslum við Landkönnunarhátíð á Húsavík sem staðið hefur yfir undanfarna þrjá daga en þetta er í þriðja sinn sem verðlaunin eru veitt. Hátíðinni lýkur á morgun en það er Könnunarsafnið á Húsavík sem stendur að bæði verðlaununum og hátíðinni.

Frá verðlaunaafhendingunni í dag en það er Könnunarsafnið á Húsavík …
Frá verðlaunaafhendingunni í dag en það er Könnunarsafnið á Húsavík sem stendur að Landkönnunarverðlaunum Leifs Eiríkssonar. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert