Mátti búast við ofbeldi ef hún var sýnileg

Sigrún komst út úr aðstæðunum áður en hún brotnaði alveg …
Sigrún komst út úr aðstæðunum áður en hún brotnaði alveg niður. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ef að ég var sýnileg í vinnunni minni þá vissi ég að þegar ég kom heim að kvöldi þá mátti ég búast við hverju sem var. Þetta fór að hafa áhrif, ekki bara á mitt sjálfstraust og mína tilveru, heldur líka á starfið mitt. Ég fór að hætta að vera í mynd og fór að lesa texta.“

Þannig lýsir Dr. Sigrún Stefánsdóttir, fyrrverandi fréttamaður, afleiðingum heimilisofbeldis sem hún bjó við um árabil. Sigrún greindi í fyrsta skipti opinberlega frá ofbeldinu í söfnunarþættinum Á allra vörum, sem nú stendur yfir á RÚV. Þar er safnað fyrir nýju húsnæði fyrir konur og börn sem eiga ekki í nein hús að venda eftir að dvöl þeirra í Kvennaathvarfinu lýkur.

Sigrúnu brá þegar kunningi hennar kom til hennar og spurði hvort hún væri hætt að vinna í sjónvarpinu. „Þá var ég orðin svo ósýnileg og lítil inni í mér að ég var að reyna að vernda sjálfa mig með því að sjást ekki.“

Sigrún reyndi að láta fjölskyldu sína ekki vita af ofbeldinu, því hún dæmdi sjálf konur sem bjuggu við þessar aðstæður. Skildi ekki af hverju þær drifu sig ekki út úr þeim. „Ég upplifði svo allt í einu að ég gat ekki drifið mig út úr þeim. Maður heldur að allt sé sjálfum manni að kenna og sjálfstraustið brotnar niður. Mér fannst ég vera föst og vildi ekki tala um þetta.“

Varð betri fréttamaður og kennari

Sigrún komst svo að því síðar að faðir hennar hafði hringt í sambýlismann hennar og sagt að honum þætti óásættanlegt að dóttir hans byggi við þessar aðstæður. „Mér þykir ofboðslega vænt um að hann skyldi gera þetta. Ég held að við séum alltof hrædd við að skipta okkur af ef við vitum hvað er í gangi. Maður verður svo einmana og ég held að það sé ótrúlega mikils virði að finna að fólki vilji ekki að maður lifi áfram við þessar aðstæður.“

Hún segir þessa lífsreynslu hins vegar hafa kennt sér mjög mikið, enda hafi hún verið nógu sterk til að koma sér út úr aðstæðunum áður en búið var að brjóta hana alveg niður. „Það gekk svo mikið á að ég hugsaði: „Hingað og ekki lengra“ þannig ég fór. Það er svo auðvelt að detta niður í sjálfsvorkunn og vesældóm en ég ákvað að ég ætlaði að nota þessa reynslu til þess að byggja mig upp og ég gerði það.“

Sigrún telur reynsluna hafa þroskað hana mikið og gert hana að sterkari einstaklingi. Hún hafi betri skilning á erfiðum aðstæðum sem hafi bæði gert hana að skárri kennara og fréttamanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert