Norsk norðurljós ekki íslensk

Ljósmyndari mbl.is og Morgunblaðsins tók þessa flottu mynd af norðurljósum …
Ljósmyndari mbl.is og Morgunblaðsins tók þessa flottu mynd af norðurljósum við Skorradalsvatn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjallað er í norskum fjölmiðli um auglýsingu sem blasir við farþegum í íslenskri flugstöð þar sem þeir eru boðnir velkomnir til Íslands og á auglýsingunni er mjög flott norðurljósamynd. En gallinn er að myndin er ekki tekin á Íslandi heldur í Noregi.

Á vefnum Fædrelandsvennen er haft eftir Raymond Martinsen að honum hafi brugðið í brún þegar hann gekk fram hjá stórum skjá á Reykjavíkurflugvelli þar sem Mastercard býður ferðamenn velkomna til Íslands. 

„Myndin er tekin í Ersfjorden, 20 mínútur frá miðborg Tromsø. Hún er ekki tekin á Íslandi,“ segir hann í viðtalinu. 

Ekki kemur á óvart að Martinsen þekki staðhætti því hann varð þjóðþekktur í Noregi fyrir að sigla skemmtiferðaskipinu MS Spitsbergen „heim“ í óveðri. Hann býr innst í firðinum – í Ersfjordbotn.

Hann bætir við að Mastercard hefði ekki átt að lenda í vandræðum með að finna flott myndefni á Íslandi. Hann hafi oft siglt í kringum Ísland og landið státi af gríðarlega fallegu landslagi.

Fréttin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert