Ríkinu gert að greiða fyrir gæsluvaktir

Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Íslenska ríkið var í Hæstarétti í vikunni dæmt til að greiða fyrrverandi yfirlækni við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða tæpar 14 milljónir króna fyrir gæsluvaktir sem hann átti rétt á eftir að staða hans var lögð niður á sínum tíma. Í héraðsdómi var íslenska ríkið sýknað af kröfu mannsins.

Örn Erlendur Ingason starfaði sem yfirlæknir heilsugæslunnar hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Í kjölfar sameiningar HV og Heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði  undir heiti hinnar fyrrnefndu var honum tilkynnt að að ákveðið hefði verið að leggja niður starf hans frá og með 1. janúar 2015. Naut læknirinn biðlauna frá þeim degi til 31. desember sama ár.

Í málinu krafðist Örn í fyrsta lagi að viðurkennt yrði að niðurlagning starfs hans hefði verið ólögmæt.

Í öðru lagi krafðist hann greiðslu vegna svokallaðra gæsluvakta sem hann taldi sig eiga rétt til á biðlaunatímanum.

Í þriðja lagi krafðist hann miskabóta vegna ólögmætrar niðurlagningar starfsins. Hæstiréttur vísaði viðurkenningarkröfu Arnar frá héraðsdómi með vísan til þess að Örn hefði ekki lögmæta hagsmuni af því að fá sérstaka úrlausn um kröfuna, enda yrði að leggja mat á ólögmæti niðurlagningarinnar kæmi til þess að taka þyrfti afstöðu til kröfu hans um miskabætur.

Að því er varðaði rétt Arnar til greiðslu fyrir gæsluvaktir vísaði Hæstiréttur meðal annars til þess að samkvæmt 1. mgr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skyldi Örn halda „óbreyttum launakjörum“ á biðlaunatímanum. Gæsluvaktir hefðu verið óháðar vinnuframlagi hans og yrðu þær því lagðar að jöfnu við samninga um fastar yfirvinnugreiðslur óháð vinnuframlagi sem í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefðu verið taldar falla undir biðlaun.Var því fallist á kröfu Arnar um greiðslu vegna þeirra.

Kröfu Arnar um miskabætur var á hinn bóginn vísað frá héraðsdómi með vísan til þess að hún væri í þversögn við kröfu hans um leiðréttingu á biðlaunum.

Hæstiréttur dæmdi því íslenska ríkið til að greiða Erni 13.872.880 krónur með dráttarvöxtum og málskostnað hans upp á eina og hálfa milljón króna.

Dómur Hæstaréttar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert