Veggirnir ekki árekstrarprófaðir

Sjálfstæðismenn vilja að ný samgöngumannvirki standist öryggisstaðla.
Sjálfstæðismenn vilja að ný samgöngumannvirki standist öryggisstaðla. Eggert Jóhannesson

Veggir beggja vegna Miklubrautar, milli Lönguhlíðar og Rauðarárstígs, kosta samtals 60 milljónir króna. Þeim er ætlað að bæta hljóðvist og umhverfisgæði íbúa og þeirra sem nota Klambratún sem og að stýra þverumferð gangandi og hjólandi vegfarenda. Hvorugur veggjanna hefur verið árekstrarprófaður.

Þetta kemur fram í svari Þorsteins R. Hermannssonar, samgöngustjóra Reykjavíkurborgar, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Á fundi ráðsins í gær lögðu fulltrúar flokksins fram bókun þess efnis að æskilegt væri að öll ný umferðarmannvirki í borginni væru hönnuð með hliðsjón af alþjóðlegum viðurkenndum umhverfisstöðlum.

„Af svari umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn um veggi við Miklubraut verður ráðið að umrædd mannvirki standist ekki evrópska umferðaröryggisstaðla, hvorki grjótveggur norðan Miklubrautar né steyptur veggur sunnan hennar. Ekki verður hjá því komist að gera alvarlegar athugasemdir við slík vinnubrögð um leið og óskað er eftir því að úr verði bætt,“ segir í bókuninni. Þá er bent á að 8 alvarleg slys hafi orðið á vegkaflanum frá árinu 1996.

Veggir valdir til að mæta kröfum íbúa

Undanfarið hefur verið unnið að því að reisa hlaðinn vegg milli Miklubrautar og Klambratúns en samhliða er verið að byggja strætórein og göngu- og hjólastíg. Þá á að steypa upp vegg hinu megin götunnar.

Veggurinn stendur í um 1,3 til 1,5 metra hæð yfir …
Veggurinn stendur í um 1,3 til 1,5 metra hæð yfir götunni. Gangandi og hjólandi vegfarendur eiga að sjá vel yfir hann - en gera má ráð fyrir að það sé einstaklingsbundið. Eggert Jóhannesson

í svarinu kemur fram að valið hafi staðið á milli þess að hafa lága veggi sitt hvoru megin götunnar eða girðingu í miðeyju. Íbúar hafi ítrekað lagt fram beiðnir um að samhliða uppbyggingu strætóreinar yrði „hljóðvist bætt og umhverfið fegrað með meiri gróðri.“ Tekið er fram að grjótveggurinn að norðanverðu standi í 1,3 til 1,5 metra hæð yfir akbrautinni , svo gangandi og hjólandi muni sjá yfir þá. Þá muni aftan við veggina beggja vegna götunnar koma runnagróður og tré. „Umhverfisgæði þeirra sem þarna búa og fara um gangandi og hjólandi munu aukast talsvert frá því sem nú er.“

Hvorugur árekstrarprófaður

í svarinu kemur enn fremur fram að hvorugur veggjanna, sá steypti að sunnanverðu eða sá hlaðni norðanmegin götunnar hafi verið árekstrarprófaður eða fengið vottun sem eftirgefanlegur vegbúnaður. Verkefnið sé hins vegar samstarfsverkefni borgarinnar og Vegagerðarinnar.

„Sérfræðingar sem unnið hafa að verkefninu hafa ekki talið ástæðu til að setja upp vegrið til að varna því að bílar aki á veggi norðan eða sunnan götunnar. Ef vilji er til að setja vegrið, til að verja veggi fyrir árekstrum er rými til þess Klambratúnsmegin en ekki sunnanmegin,“ segir í svari Samgöngustjóra sem er jafnframt megininntakið í gagnbókun meirihluta borgarráðs. Þar er tekið fram að vilji borgarinnar standi til að draga úr umferðarhraða um götuna. Það sé besta öryggisaðgerðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert