Íbúafundur á Ísafirði í beinni

Fundurinn fer fram í íþróttahúsinu á Ísafirði.
Fundurinn fer fram í íþróttahúsinu á Ísafirði. Skjáskot/YouTube

Sveitarfélögin á Vestfjörðum, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur, Vesturbyggð, Reykhólahreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð og Árneshreppur, boða ásamt Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Verkalýðsfélagi Vestfirðinga til borgarafundar í íþróttahúsinu á Ísafirði í dag kl. 14. Á fundinum verða rædd ein mikilvægustu hagsmunamál fjórðungsins um þessar mundir sem snúast öll um mikilvæga innviðauppbyggingu á Vestfjörðum. Meðal annars verður gerð grein fyrir meginniðurstöðum nýrrar skýrslu KPMG fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða um hagsræn og samfélagsleg áhrif sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er kominn til Ísafjarðar og verður á fundinum. Þá hafa starfandi ráðherrar nokkurra málaflokka hafa staðfest komu sína; ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. Umhverfis- og auðlindaráðherra sá sér ekki fært að mæta á fundinn, segir í fréttatilkynningu.

Verkefnin sem rædd verða á borgarafundinum lúta að raforkumálum (Hvalárvirkjun), samgöngumálum (Gufudalssveit) og sjókvíaeldi (í Ísafjarðardjúpi). 

Hægt er að horfa á íbúafundinn í beinni útsendingu hér að neðan.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert