Kokkur ársins krýndur í Hörpu

Hörð barátta var um titilinn, en Hafsteinn Ólafsson landaði honum …
Hörð barátta var um titilinn, en Hafsteinn Ólafsson landaði honum að þessu sinni.

Hafsteinn Ólafsson, matreiðslumaður á Sumac Grill + Drinks, hlaut í gærkvöldi hinn eftirsótta titil Kokkur ársins 2017 eftir harða baráttu, en naumt var á munum á milli efstu manna.

Keppnin fór fram fyrir fullum sal í Hörpu þar sem fjöldi gesta fylgdist með kokkunum töfra fram keppnismáltíðina. Á lokasprettinum fór fram, samhliða keppninni, veisla fyrir gesti sem höfðu tryggt sér miða á Kokkalandsliðskvöldverð og skemmtun.

Um val sigurvegarans sá fjölskipuð 11 manna dómnefnd.  Yfirdómari var Krister Dahl frá Svíþjóð, en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, krýndi Kokk ársins í lok kvöldsins.

Dahl, sem er margverðlaunaður í keppnismatreiðslu og stýrir eldhúsum Gothia Towers í Gautaborg þ.m.t. 1 stjörnu Michelin veitingahúsinu Upper House hafði þetta um keppnina að segja:

„Það er greinilegt að keppendur koma vel undirbúnir til leiks og samkeppnin er hörð, ég verð að hrósa þessum ungu íslensku kokkum fyrir þeirra framlag og er sérstaklega hrifinn af sigurvegaranum sem kom og heillaði dómnefndina með sínum flotta mat og faglegu vinnubrögðum. Ísland er svo sannarlega komið á kortið sem hágæða matarland og íslenskir kokkar standa sig afar vel í alþjóðlegum samanburði t.d. í alþjóðlegum matreiðslukeppnum.“

Í öðru sæti var Garðar Kári Garðarsson, matreiðslumaður á Deplar Farm og Strikinu, og í því þriðja var Víðir Erlingsson, matreiðslumaður í Bláa lóninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert