Löngu orðin hluti af Íslandi

Jeimmy Andrea Gutiérrez Villanueva kom hingað sem flóttamaður frá Kólumbíu …
Jeimmy Andrea Gutiérrez Villanueva kom hingað sem flóttamaður frá Kólumbíu árið 2005. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jeimmy Andrea Gutiérrez Villanueva vissi ekkert um Ísland þegar hún var spurð að því hvort hún gæti hugsað sér að fara þangað sem flóttamaður. En hún þurfti ekki að hugsa sig lengi um því aðstæður hennar voru ömurlegar og hún sá enga aðra leið en að fara í burtu.

Jeimmy Andrea var 22 ára gömul þegar hún kom hingað og auk hennar tóku íslensk yfirvöld á móti hópi kvenna frá Kólumbíu sem einnig höfðu flúið til Ekvador. Flestir þeirra flóttamanna sem hafa komið hingað frá Kólumbíu hafa komið frá Ekvador og Kosta Ríka.  

Að sögn Jeimmy Andrea hafði hún verið í Ekvador í tvö ár eftir að hafa flúið mikla fátækt og glæpi í heimalandinu en hana dreymdi um að mennta sig en ekki var möguleiki á því við þær aðstæður sem henni stóðu til boða þar.

Tveir heimar í sömu borg

Hún kom ein hingað til lands en fjölskylda hennar býr enn í Kólumbíu. Jeimmy Andrea var fimmtán ára þegar hún fór að heiman til þess að sjá fyrir sér. Misskiptingin er mikil í Kólumbíu og má segja að höfuðborgin Bógatá skiptist í tvo heima. Heimur Jeimmy Andrea var í fátæka hluta borgarinnar og segir hún að þegar hún fari þangað þá sjái hún að lítið hafi breyst. Öll uppbyggingin er í þeim hluta sem efnað fólk býr í og skiptir þar engu hvort fjármagnið komi úr opinberum sjóðum eður ei. Fátæktin er sláandi í sumum hverfum og erfitt að ímynda sér að búa þar aftur.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Þrátt fyrir að hafa lagt mikið á sig við að reyna að láta enda ná saman um leið og hún stundaði nám í menntaskóla gafst Jeimmy upp og ákvað að flýja til Ekvador þar sem ekki var krafist vegabréfsáritunar þangað. Þar vann hún á næturnar og stundaði nám á daginn. Þar sem hún var útlendingur þurfti hún að greiða gríðarlega há skólagjöld og kostaði sex mánaða nám meira en þreföld mánaðarlaun hennar. Það gaf því auga leið að þetta gekk einfaldlega ekki upp. Ekki bætti úr skák að mörgum íbúum Ekvador er mjög í nöp við fólk sem kom frá Kólumbíu og taldi það stela vinnunni frá þeim. En hún gat ekki snúið heim því þar var enga framtíð að fá.

Hún leitaði því eftir aðstoð og eftir þrjá mánuði var hringt í hana frá starfsfólki Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Jeimmy Andrea fór í viðtal og eftir að hafa sagt þeim sögu sína var henni tjáð að Ísland biði hennar ef hún væri reiðubúin til þess að hefja nýtt líf hinum megin á hnettinum.

Eldgosið í Eyjafjallajökli kom Íslandi á heimskortið.
Eldgosið í Eyjafjallajökli kom Íslandi á heimskortið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Eyjafjallajökull kom Íslandi á kortið

„Ég hafði aldrei heyrt minnst á Ísland fyrr og ekki neinn sem ég þekkti. Það breyttist ekki í raun fyrr en Eyjafjallajökull fór að gjósa og lokaði fyrir flugumferð um allan heim. Eftir það vita allir hvar Ísland er,“ segir Jeimmy í samtali við mbl.is.

Hún segir að fjölskyldan hafi ekki verið neitt of hrifin, sérstaklega ekki mamma hennar, af þessari ákvörðun enda óttaðist mamma hennar að Jeimmy myndi lenda í höndum mansalshrings hér. „En þetta var eins og happdrættisvinningur,“ segir Jeimmy Andrea sem hefur búið hér á landi í 12 ár.

Jeimmy Andrea segist vera mjög fegin að það var enginn snjór hér þegar hún kom hingað en mánuði síðar byrjaði að snjóa og var það í fyrsta skipti sem hún sá snjó.

„Fyrsta árið var mjög spennandi og ég lærði margt nýtt,“ segir Jeimmy Andrea og bætir við að það megi hins vegar bæta íslenskukennslu fyrir flóttafólk sem hingað kemur því íslensk tunga sé lykillinn að því að ná fótfestu í íslensku samfélagi.

Fyrsta árið fékk hún aðstoð frá Rauða krossinum og Reykjavíkurborg. Rauði krossinn kom henni í samband við fjölskyldu sem hefur reynst henni frábærlega alla tíð og litið á hana eins og eina úr fjölskyldunni.

Námskeiðið sem henni var boðið upp á var aðeins fyrir hópinn frá Kólumbíu sem þýddi að spænskan var mikið töluð í stað þess að einbeita sér að íslenskunni. Hún telur að það sé miklu betra að leggja áherslu á blandaða hópa, það er að það skipti ekki máli hvaðan fólk kemur heldur miklu frekar hvar fólk standi, svo sem hafi gengið í skóla og hafi verulegan áhuga á að halda áfram að mennta sig.

Jeimmy Andrea var töluvert yngri en hinar konurnar sem komu frá Kólumbíu og sú eina sem var barnlaus. Hún var því oft einmana á þessum tíma.

„Ég lokaði mig af heima og vildi ekki hitta annað fólk þannig að þetta var mjög erfitt stundum,“ segir hún en fjölskylda hennar hér á landi bauð hana alltaf velkomna á sitt heimili sem er ómetanlegt.

Flóttafólk þarf að kynnast Íslandi og Íslendingum

Jeimmy hefur ítrekað bent starfsfólki Reykjavíkurborgar sem kemur að komu flóttafólks og eins starfsfólki Rauða krossins á að ekki sé rétt staðið að íslenskukennslu flóttafólks.

„Það er auðvitað falleg hugsun að láta okkur halda hópinn en við verðum líka að kynnast Íslandi og Íslendingum. Ekki einangra flóttafólk heldur veita því frekar aðstoð við að takast á við Ísland og íslenskt kerfi. Að vera sjálfbjarga í stað þess að reiða okkur á stuðning frá kerfinu. En auðvitað er ekki víst að allir geti staðið á eigin fótum eftir eitt ár en mjög margir geta það. Ég var að minnsta kosti reiðubúin til þess að takast á við lífið á Íslandi eftir þann tíma,“ segir Jeimmy.

Mikil misskipting auðs er í Kólumbíu. Þar er hægt að …
Mikil misskipting auðs er í Kólumbíu. Þar er hægt að finna gríðarlega efnað fólk og um leið fólk sem býr við skelfilega fátækt og á aldrei möguleika á að losna. Wikipedia/Luis Pérez

Jeimmy Andrea stundaði nám við  Fjölbrautaskólann við Ármúla og var einnig að vinna með skólanum til þess að sjá fyrir sér. Hún þurfti ekki að taka stúdentspróf hér enda hafði hún lokið menntaskólanámi í Kólumbíu og fyrsta ári í háskóla í Ekvador.

„Ég ákvað að sækja um nám í Háskóla Íslands og þegar ég sagði félagsráðgjafanum mínum það sagði hún að ég fengi ekki fjárhagsstuðning til þess. Þetta var erfitt því ég var að vinna mikið með til þess að sjá fyrir mér,“ segir Jeimmy Andrea sem lauk  BA-prófi í spænsku frá Háskóla Íslands 2015 með íslensku sem aukagrein.

Google translate kom sér vel

Hún segir að það hefði verið betra ef hún hefði fengið betri kennslu í íslensku í upphafi og í dag, 12 árum eftir komuna hingað til lands, sé hún í erfiðari stöðu hvað málið varðar. Hún tali ágætlega íslensku en það vanti upp á málfræðina. Fátt sé í boði fyrir hana og þetta hamli henni í að stunda frekara háskólanám. Draumurinn sé að læra sálfræði og vinna með börnum en það er erfitt að láta þann draum rætast hér á landi út af íslenskunni. Jafnframt treysti hún sér ekki í nám með fullri vinnu líkt og hún þurfti að gera fyrstu árin hér á landi.

Þessi mynd birtist í Morgunblaðinu tveimur árum eftir að Jeimmy …
Þessi mynd birtist í Morgunblaðinu tveimur árum eftir að Jeimmy Andrea Gutiérrez Villanueva kom til Íslands. Jeimmy Andrea ásamt íslensku stuðningsfjölskyldunni sinni hjónunum Kolbrúnu Björnsdóttur og Bjarna Jónssyni og dætrum þeirra þeim Þóru og Hörpu Hrund og svo dóttir Hörpu Freyju Rún. mbl.is/Golli

Fyrir fimm árum kynntist Jeimmy eiginmanni sínum, David, en hann er Skoti. Þau eiga þriggja ára gamla dóttur sem er margtyngd, talar íslensku, ensku og spænsku. Jeimmy talaði í raun litla ensku þangað til hún kynntist David og segir að samræðurnar hafi verið ansi skrautlegar í fyrstu. Google translate og blanda úr þremur tungumálum, segir hún og hlær. En allt er hægt þegar ástin er fyrir hendi og hafa þau komið sér vel fyrir á Íslandi en Jeimmy starfar á leikskóla og hefur gert í nokkur ár.

Skóli á daginn og vinna á nóttunni

Jeimmy Andrea var á árunum 2010-2011  verkefnastjóri hjá Rauða krossi Íslands þar sem hún stýrði flóttamannaverkefni. Verkefnið fólst í skipulagningu, utanumhaldi og undirbúningi vegna móttöku flóttafólks frá Kólumbíu en alls hafa 60 flóttamenn komið hingað til lands þaðan.

„Það var mjög gott að geta einbeitt sér að einhverju verkefni í stað þess að vera í skóla á daginn og vinna við ræstingar á nóttunni,“ segir hún.

Jeimmy Andrea hefur kennt stóran hluta af tímanum sem hún hefur búið á Íslandi. Meðal annars spænskumælandi börnum móðurmál sitt. Eins hefur hún annast stuðningskennslu á spænsku fyrir flóttabörn sem hingað hafa komið.

Að hennar sögn taka flestir Íslendingar flóttafólki vel. Ákveðinn hópur Íslendinga telji að vísu að flóttamenn séu bara komnir hingað til þess að taka frá þeim framfærslu sem annars rynni til þeirra sem hér eru fæddir.

„Svo lengi sem ekki er vilji fyrir því að styðja okkur við nám í íslensku getur verið erfitt fyrir flóttafólk að takast á við lífið á Íslandi. Íslenskan er grunnurinn að öllu,“ segir Jeimmy sem er talsmaður þess að fræða flóttafólk vel um félagslegar bætur, svo sem húsnæðisbætur.

Hún segir að fjárhagsstuðningur frá hinu opinbera hafi verið nægur og ekki eigi að auka hann. Miklu frekar að aðstoða fólk við að forgangsraða rétt í fjármálum og að komast út á vinnumarkaðinn sem fyrst eða í nám. Það sé hins vegar auðvitað háð því að viðkomandi sé fær um að stunda vinnu.

Jeimmy Andrea Gutiérrez Villanueva kynntist eiginmanni sínum á Íslandi og …
Jeimmy Andrea Gutiérrez Villanueva kynntist eiginmanni sínum á Íslandi og dóttir þeirra var fyrsta barn ársins á Íslandi árið 2014. Eggert Jóhannesson

Jeimmy Andrea fékk íslenskan ríkisborgararétt eftir fimm ára dvöl hér á landi árið 2010 en það gekk ekki þrautarlaust fyrir sig. Var henni synjað um ríkisborgararétt á þeirri forsendu að hún gæti ekki framfleytt sér en hún fékk námsstyrk frá Reykjavíkurborg á meðan hún var við nám í Fjölbrautaskólanum í Ármúla árið 2007. Ástæðan sem Útlendingastofnun gaf var sú að styrkir eru ekki skilgreindir sem framfærsla. Allt í einu stóð Jeimmy Andrea frammi fyrir því að vera ekki með dvalarleyfi á Íslandi. Þetta var síðan lagað og hún fékk ríkisborgararétt í kjölfarið.

Jeimmy Andrea hefur eins og áður sagði verið búsett á Íslandi í tólf ár og er löngu orðinn hluti af íslensku samfélagi. Hér á hún fjölskyldu og þau ætla sér að búa áfram hér á landi. Flestir þeirra sem komu hingað til lands frá Kólumbíu hafa sest hér að en margir þeirra komu úr mjög erfiðum aðstæðum í heimalandinu. Hún segir að það sé mikilvægt fyrir hana að vera hluti af kerfinu á Íslandi. 

„Við komum til Íslands til þess að vera hluti af Íslandi og íslensku samfélagi. Að öðlast nýtt líf,“ segir Jeimmy Andrea.

mbl.is/Kristinn Garðasson
mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert