Hallbera situr í dómnefnd

Hallbera Gísladóttir er í dómnefnd sænska sendiráðsins.
Hallbera Gísladóttir er í dómnefnd sænska sendiráðsins. Ljósmynd/Úr einkasafni.

Sendiráð Svíþjóðar hvetur ungt fólk til að velta jafnrétti fyrir sér og efnir til leiks í tengslum við komu Zöru Larsson til landsins 13. október.

Svíar með feminíska utanríkismálastefnu

Zara er mikil baráttukona fyrir jafnrétti og þar sem sænska ríkisstjórnin er sú fyrsta í heimi með feminíska utanríkismálastefnu var ákveðið að hefja samkeppni á góðum hugmyndum er tengjast jafnrétti. Leikurinn fer fram á samfélagsmiðlum og á Facebook-síðu verkefnisins Sama virðing má sjá hvernig hugmyndir eru sendar inn í leikinn. 

Hallbera Gísladóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Djurgården í Stokkhólmi, mun sitja í dómnefnd ásamt Ragnhildi Steinunni fjölmiðlakonu, sem nýverið gaf út bókina Forystuþjóð ásamt Eddu Hermanns. Sigurvegararnir munu vinna sér inn tónleikamiða á tónleika Zöru 13. október. 

Hallbera ánægð í Stokkhólmi

Hallbera segir í spjalli við Magasínið að henni líki mjög vel í Stokkhólmi en áður bjó hún í Piteå í Norður-Svíþjóð. Hún segir aðstöðuna í Stokkhólmi hafa komið sér örlítið á óvart og að Piteå hafi boðið upp á fína aðstöðu, meira líkt þeirri sem hún hafi átt að venjast heima. 

„Ég fór frá Breiðabliki þar sem voru 12 sturtur, heitur pottur og risaklefi. Núna eru svona tvær meðalheitar sturtur og það er bara að deila,“ segir Hallbera á léttum nótum. 

Hér að neðan má hlusta á viðtalið í heild. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert