Innköllunarkerfinu ekki breytt þrátt fyrir vankanta

Haraldur segir ekki æskilegt að það líði langur tími frá …
Haraldur segir ekki æskilegt að það líði langur tími frá því að bólusetning á að fara fram þar til barnið er boðað í bólusetningu.

Ekki stendur til að breyta fyrirkomulagi innköllunarkerfis heilsugæslunnar þrátt fyrir að sóttvarnarlæknir segi kerfið ófullnægjandi og telji það eigan stóran þátt í að þátttaka í bólusetningum barna við 12 mánaða og 4 ára aldur hafi dregist saman á milli ára.

Í skýrslu sem sóttvarnalæknir gaf út í síðustu viku um þátttöku í almennum bólusetningum, kemur fram að þátttaka í bólusetningum áðurnefndra aldurshópa er ekki viðunandi, en hún fór undir 90 prósent á síðasta ári í öllum landshlutum. Fór jafnvel niður í 80 prósent í sumum landshlutum.

Í skýrslunni kemur fram að ef þátttaka minnkar enn frekar megi búast við því að hér á landi fari að sjást sjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil. Ítrekað hefur komið fram að ástæðan sé ekki sú að foreldrar vilji ekki bólusetja börn sín, enda sé þátttaka mjög góð í bólusetningum yngri barna. Innköllunarkerfið hljóti því að vera sökudólgurinn, að miklu leyti.

Þrátt fyrir þetta stendur ekki til að bæta kerfið eða breyta því á neinn hátt, að sögn Haraldar Briem, staðgengils sóttvarnalæknis.

Nafnalistar barna sendir á heilsugæsluna 

„Auðvitað er það þannig að krakkarnir eiga að koma á ákveðnum aldri í bólusetningar og það á að kalla þau inn til þess. Svo getur verið, eins og lífið er, að krakkinn er kannski veikur og þetta gleymist, eða það næst ekki í foreldrana. Við sjáum það á bólusetningarþátttöku hjá yngstu börnunum, að hún er mikil, það er því ekki þannig að foreldrar séu á móti því að bólusetja. Þetta er eitthvað sem virðist stundum falla á milli skips og bryggju. Það geta verið breytilegar aðstæður hjá fólki og þá vill þetta gleymast.“

Haraldur segir ljóst að innköllunarkerfið virki ekki sem skyldi við þessar aðstæður. Það á hins vegar að virka þannig að sóttvarnalæknir sendir út lista til heilsugæslunnar með nöfnum á þeim börnum sem virðast vera óbólusett, óskar eftir því að starfsmenn hafi samband við foreldra þeirra og boði í bólusetningu. Þá á heilsugæslan að koma nýjum upplýsingum til sóttvarnalæknis ef börn skila sér í bólusetningar og einnig ef nöfn bólusettra barna eru ekki á listanum sem sendur er út.

Ekki auðvelt að bæta núverandi kerfi

En hvernig er kerfinu þá ábótavant? „Menn þurfa bara að hafa hugann við þetta, kerfið getur verið snúið og flókið. En þetta er okkar aðferð við að finna börn sem ekki eru bólusett og reyna að sjá til þess að þau komi í bólusetningar.“ Aðspurður hvort það sé ítrekað verið að senda út lista með nöfnum sömu barnanna segist Haraldur ekki hafa athugað það sérstaklega. „Ég held samt að það sé ekki. Þetta er frekar eitthvað tilviljanakennt.“

Haraldur segir ekki æskilegt að það líði langur tími frá því að bólusetning á að fara fram þar til barnið er boðað í bólusetningu. Það séu hins vegar engin sérstök tímamörk sem heilsugæslunni er gert að fara eftir. „Við viljum ekki að það séu mikil frávik. Það er allt í lagi að það líði einhverjir mánuðir, en það er ekki sagt að einhver tímamörk séu óþolandi.“

Aðspurður segist Haraldur ekki telja það auðvelt mál að bæta innköllunarkerfið í þeim tilgangi að gera það skilvirkara. „Þetta kerfi er vissulega öflugt. Ef við hefðum það ekki vissum við ekki neitt. Þetta er tékkkerfið. Við skoðum hve margir mæta og ef það er ófullnægjandi að okkar mati þá sendum við út nafnalista.“

Mikilvægt að styrkja bólusetningu 12 mánaða

Hann telur hugsanlegt að foreldrar verði kærulausari varðandi bólusetningar þegar börnin eldast, enda sé athyglin á þeim mun meiri og öðruvísi fyrstu mánuðina. „Það kemur eitthvert los á þetta þegar börnin eldast. Við reynum að standa okkur en höfum áhyggjur af því ef þetta dettur niður. Það getur haft alvarlegar afleiðingar.“

Hann bendir á að tilgangur 12 mánaða bólusetningar sé að styrkja bæði 3 og 6 mánaða bólusetningarnar og því sé mjög mikilvægt fyrir börn að fá hana.

Það stendur því ekki til að breyta innköllunarkerfinu? „Nei, við reynum bara að hvetja fólk til að standa sig,“ segir Haraldur. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði þó í síðustu viku að áætlanir væru í gangi um að fara betur yfir tölur um óbólusett börn í samvinnu við heilsgæsluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert