Andlát: Örn Ingi Gíslason

Örn Ingi Gíslason.
Örn Ingi Gíslason.

Örn Ingi Gíslason fjöllistamaður lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri laugardaginn 23. september, 72 að aldri. Hann fæddist á Akureyri 2. júní 1945 og bjó þar alla tíð. Móðir Arnar Inga var Guðbjörg Sigurðardóttir húsmóðir og kjörfaðir Gísli Einarsson sjómaður.

Örn Ingi starfaði í Landsbanka Íslands til ársins 1973. Hann lét þá af störfum og sinnti myndlist og tengdum verkefnum upp frá því. Örn Ingi var sjálfmenntaður myndlistarmaður og fékkst við landslagsmálverk, ljósmyndir, abstrakt, skúlptúra og innsetningar og tók virkan þátt í menningarlífi Akureyrar. Þessi verk vann hann í hefðbundin efni eins og olíu og akrýl, pastelkrít, vatnsliti og tré en einnig nýtti hann sér annan efnivið úr náttúrunni og nærumhverfi. Myndverk sín og innsetningar sýndi hann víða. Örn Ingi var óhræddur við að halda á ný mið. Hann var þekktur fyrir gjörninga og innsetningar sem má rekja til ársins 1979 þegar hann framdi gjörninga í Menntaskólanum á Akureyri og Menntaskólanum við Sund í Reykjavík. Þeir báru nöfn eins og Bráðum koma blessuð jólin, List er mannsins megin og Jarðarför verðbólgunnar en flytjendur voru m.a. nemendur í Tónlistarskólanum á Akureyri. Auk þessa gerði hann sviðsmyndir við leikrit í Samkomuhúsi Akureyrar, rak veitingahús í Laxdalshúsi, sinnti dagskrárgerð fyrir útvarp og sjónvarp og bjó til heimildamyndir og leiknar kvikmyndir. Örn Ingi rak sumarlistaskóla fyrir börn um árabil á Akureyri og Myndlistarskóla Arnar Inga á heimili sínu, Klettagerði 6 á Akureyri, í á annan áratug. Þá má líka nefna fjölmörg námskeið fyrir börn í grunnskólum landsins sem og bæjarhátíðir um allt land.

Erni Inga var veitt heiðursviðurkenning Menningarsjóðs Akureyrar á A!-gjörningahátíð 2017.

Örn Ingi lætur eftir sig eiginkonu, Dýrleifu Bjarnadóttur píanókennara, dóttur og stjúpson, Halldóru og Þórarin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert