Matvörubúðir í Eyjum orðnar tómlegar

Vestmannaeyingar bíða í ofvæni eftir endurkomu bilaðs Herjólfs.
Vestmannaeyingar bíða í ofvæni eftir endurkomu bilaðs Herjólfs. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég var að koma úr búðinni þar sem ég var að hamstra mjólk, það var orðið mjög lítið eftir og maður veit ekki hvenær hún kemur aftur,“ segir Valur Smári Heimisson, sem búsettur er í Vestmannaeyjum þar sem skapast hefur mikið óvissuástand í samgöngumálum. Hann segir matvörubúðir vera orðnar mjög tómlegar, lítið sé eftir af brauði og skyri, auk þess sem nánast enga banana sé að fá.

„Þetta er skelfilegt ástand. Mér skilst að það sé reiknað með Herjólfi aftur á föstudag og það eru nánast engar líkur á að Röst sé að fara að sigla eitthvað meira. Ég held það geti bara farið að sigla aftur til Noregs,“ segir Valur Smári og að það sé ekki bara það að matvörubúðir séu að tæmast heldur séu mun fleiri hjól í samfélaginu sem séu stopp vegna ástandsins.

Nútímasamfélag geti ekki boðið upp á aðstöðu sem þessa

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir í samtali við mbl.is að um algert ófremdarástand sé að ræða. „Það ergilega í þessu er að við bentum á þetta áður en afleysingaskipið var fengið til landsins. Í fyrravor bentum við á að hér verður alltaf að vera skip sem getur haldið uppi samgöngum bæði við Landeyjahöfn og Þorlákshöfn. Það er þyngra en tárum taki og við erum í þessari stöðu ár eftir ár og það virðist því miður ekki ríkja neinn skilningur á henni.“

Elliði staðfestir að von sé á Herjólfi á allra næstu dögum og að ekki sjáist fram á að Röst muni sigla meira á milli lands og Eyja. „Það sýnir sig eiginlega hver staðan er þegar við bíðum í ofvæni eftir biluðu skipi sem er orðið það allra elsta sem nokkurn tíma hefur siglt milli lands og Eyja.“

Hann segir nánast öruggt að Herjólfur muni hefja siglingar til Þorlákshafnar vegna grunnsævis í Landeyjahöfn. „Það er dýpkunarskip hér við bryggju og skipið sem er í Landeyjahöfn er of lítið bæði fyrir Röst og Herjólf. Við náttúrulega reynum að nota flug eins og mögulegt er og Flugfélagið Ernir á hrós skilið fyrir það hvernig þeir hafa brugðist við. Þarna er fyrirtæki sem bætir tafarlaust við ferðum og hefur staðið sig með stakri prýði. Það er ljósið í þessu samgöngumyrkri.“

Elliði segir vandamálið ekki aðeins það að heimamenn komist ekki heim og heiman, heldur séu þarna fyrirtæki sem þurfi að flytja afurðir sínar og ferðamenn sem eru innlyksa dag eftir dag. „Ef við ætlum að standa undir því að vera nútímasamfélag þá getum við ekki boðið upp á aðstöðu sem þessa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert