Borgin bregst við manneklu með aðgerðum

Leikskólabörn bíða eftir strætisvagni.
Leikskólabörn bíða eftir strætisvagni. Ómar Óskarsson

Meirihluti skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar lagði til á fundi sínum í gær að gripið verði til margvíslegra aðgerða til að bregðast við manneklu í leikskólum, frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Í tilkynningu borgarinnar segir að lagt sé til að átta tillögur sem aðgerðarteymi í leikskólum lagði fram komi strax til framkvæmda og fjórar tillögur aðgerðateymis í frístundastarfi. Skóla- og frístundaráð samþykkti að vísa þessum tillögum til borgarráðs til endanlegrar afgreiðslu.

Stjórnendur fái eingreiðslu vegna álags

Meðal aðgerða sem lagt er til í leikskólum er að auka fjárframlög til að mæta auknu álagi á starfsfólk og bæta liðsanda á vinnustað, fjölga starfsmannafundum utan dagvinnutíma og veita stjórnendum eingreiðslu vegna álags.

Einnig fá leikskólar sem glíma við manneklu heimild til að greiða fyrir undirbúningstíma í yfirvinnu og fjármagn til kynningarstarfs til að laða að nýtt starfsfólk.

Kostnaður vegna þessara aðgerða á leikskólum er metinn um 127 milljónir króna.

Í fréttatilkynningunni segir að öðrum tillögum aðgerðateymis verði vísað til starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara og til kjara- og mannauðsdeilda Reykjavíkurborgar.

Námsleyfi fyrir starfsmenn frístundaheimila

Aðgerðir til að mæta manneklu og efla mannauð í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum fela meðal annars í sér fjármagn til að mæta auknu álagi á starfsfólk og bæta liðsanda, hækkun á efnis- og rekstrarframlögum, eingreiðslu til stjórnenda og námsleyfi fyrir starfsmenn.

Kostnaður vegna þessara aðgerða á frístundaheimilum er áætlaður um 22 milljónir króna. 

Öðrum tillögum aðgerðateymis til að mæta manneklu í frístundastarfi verður annars vegar vísað til starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum og hins vegar til kjara- og mannauðsdeilda Reykjavíkurborgar, að því er segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert