Lýsa yfir óvissustigi fyrir austan

Mikil úrkoma hefur verið fyrir austan.
Mikil úrkoma hefur verið fyrir austan. Ljósmynd/Landsbjörg

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna úrkomu og vatnavaxta á Mýrum í Austur Skaftafellssýslu. Þjóðvegur 1 er í sundur austan við Hólmsá á Mýrum í Hornafirði. Brúin yfir Steinavötn í Suðursveit er lokuð fyrir umferð stórra bíla.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Facebook.

„Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila,“ segir í tilkynningu.

Þá segir í tilkynningu frá Vegagerðinni að Hólmsá á Mýrum, sem er skammt vestan við Höfn í Hornafirði, flæði yfir þjóðveginn. Ekki sé útlit fyrir að vegurinn opnist fyrr en í fyrsta lagi á sunnudag. Verið sé að kanna aðstæður við Steinavatnabrú í Suðursveit.

Þá sé vegur 966 í Breiðdal í sundur vegna vatnsskemmda, alveg innst í dalnum - og eins er ófært upp í Laka og Þakgil vegna vatnsskemmda. Vegir hafa skemmst víðar vegna vatnavaxtanna s.s. þar sem runnið hefur úr vegköntum og fólk er því beðið að sýna aðgát við akstur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert