Sigmundur Davíð með meira fylgi en Framsókn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mælist með 7,3% fylgi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mælist með 7,3% fylgi. Rax / Ragnar Axelsson

Fylgi við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem boðað hefur stofnun nýs framboðs, mælist 7,3% í nýrri skoðanakönnun MMR. Hann mælist með meira fylgi en Framsóknarflokkurinn, sem mælist með 6,4% fylgi.

Vinstri hreyfingin grænt framboð, VG, mælist í könnuninni stærsti flokkur landsins, líkt og í könnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Morgunblaðið í síðustu viku. Fylgið mælist 24,7% en stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn mælist 23,5%.

Samfylkingin og Píratar mælast með um 10% fylgi hvor flokkur en Flokkur fólksins mælist með 8,5% fylgi. Ríkisstjórnarflokkarnir Viðreisn og Björt framtíð ná ekki 5% markinu í þessari könnun en fylgi Viðreisnar mælist 4,9%. Fylgi Bjartrar framtíðar mælist 2,5%.

Stuðningur við ríkisstjórnina, sem starfar sem starfsstjórn, mælist 22,5% en var 29,5% í síðustu könnun MMR.

Könnunin var gerð 26.-28. september og var heildarfjöldi svarenda 1012 einstaklingar, 18 ára og eldri. Tekið skal fram að vikmörk miðað við þessa stærð af úrtaki geta verið allt að 3,1% - raunverulegt fylgi flokkanna getur verið einhversstaðar á bili sem er 3,1 prósentustigi hærra eða lægra en niðurstaðan gefur til kynna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert