Tvær „andstæðar klíkur“ innan deildarinnar

Lögreglustöð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Hlemmi.
Lögreglustöð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Hlemmi. mbl.is/Golli

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn miðlægar rannsóknardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, hafa gefið það í skyn að til stæði að rannsaka meinta hylmingu af hálfu Aldísar Hilmarsdóttur, fyrrverandi yfirmanns fíkniefnadeildarinnar, með nánum samstarfsmanni sínum í deildinni sem grunaður var um spillingu.

Þetta sagði Friðrik Smári í skýrslutöku fyrir héraðsdómi í dag við aðalmeðferð í máli Aldísar gegn íslenska ríkinu. Sigríður Björk sagði aftur á móti fyrir dómi að sjálf hafi Aldís ekki verið grunuð um nokkuð misferli í starfi, aðstæður innan deildarinnar hafi verið erfiðar, og því hafi hún talið rétt að færa hana tímabundið til í starfi.

„Að mínu mati stóð hún sig afburðavel,“ sagði Friðrik Smári um störf Aldísar en hann var hennar næsti yfirmaður þar til hún fór í veikindaleyfi, og loks í leyfi frá störfum, í kjölfar ákvörðunar lögreglustjóra. 

Þá kveðst hann ekki kannast við það að afköst deildarinnar hafi verið lítil, þvert á móti hafi Aldís staðið sig með prýði í hlutverki yfirmanns, reynt að miðla málum og hún nálgast starf sitt af fagmennsku. Aftur á móti kunni að vera að ástandið innan deildarinnar gæti hafa haft áhrif á afköst deildarinnar. Honum sjálfum hafi ekki borist nokkrar kvartanir frá undirmönnum um störf Aldísar en hann hafi þó heyrt af slíkum kvörtunum.

Öllum þeim er gáfu skýrslu fyrir dómi í dag ber saman um það að mjög erfið staða hafi ríkt innan deildarinnar og samskipti verið stirð. Einkum hafi ástandið verið erfitt vegna meintra spillingarmála sem til rannsóknar voru innan deildarinnar og fjölmiðlaumfjöllun um mál þau hafi gert ástandið enn erfiðara.

Skiptar skoðanir á frammistöðu Aldísar

Aftur á móti eru ekki allir á sama máli um hlut Aldísar og hæfni hennar í starfi í þeirri erfiðu stöðu sem uppi var, og sem raunar hafði verið uppi um nokkurt skeið áður en Aldís tók við deildinni.

Jón H.B. Snorrason, fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn, gaf jafnframt skýrslu fyrir dómi og tók í svipaðan streng og Friðrik Smári. Aldís hafi verið yfirburðar starfsmaður og líklega hafi einingin innan deildarinnar undir stjórn Aldísar verið um margt „mun betri en í mörg ár þar á undan.“ Þótt staðan hafi vissulega verið erfið hafi hún frekar farið batnandi en hitt. Kváðust þeir báðir bera fullt traust til Aldísar og undruðust hvor með sínum hætti nokkuð ákvörðun lögreglustjórans. Sjálfur kveðst Friðrik Smári ekki hafa verið hafður með í ráðum þegar tekin var ákvörðun um tilfærslu Aldísar í starfi.

Nokkrir lögreglufulltrúar innan deildarinnar sem gáfu skýrslu fyrir dómi í dag og tilheyra „annarri klíku“ en Aldís ku hafa tilheyrt innan deildarinnar, voru ekki á sama máli. Hana hafi skort hæfni í mannlegum samskiptum, verið hrokafull og ekki starfi sínu vaxin. Þeir hafi lýst yfir áhyggjum sínum vegna þessa við lögreglustjóra en ekki við Aldísi beint.

Sjálf kveðst Aldís ekki taka undir að hægt sé að tala um tvær ólíkar fylkingar, aftur á móti hafi deildin verið tvískipt og starfað á sitt hvorri hæðinni í húsnæði lögreglunnar. Hún hafi leitast við að sameina deildina betur.

„Með boxhanskann á lofti“

„Þetta voru tvær andstæðar hreyfingar innan deildarinnar, og kannski sú þriðja sem þagði,“ sagði Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fyrrverandi aðstoðarlögreglustjóri og aðallögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „Það logaði allt stafnanna á milli.”

Alda Hrönn stýrði innleiðingarhópnum sem Aldís tilheyrði vegna umfangsmikilla breytinga á skipulagi innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Alda kveðst aldrei á sínum starfsferli hafa kynnst öðru eins og staðan hafi verið mjög erfið í deildinni.

Samstarf þeirra Aldísar hafi gengið vel í nefndinni að sögn Öldu Hrannar, en aftur á móti hafi Aldís alltaf mætt „með boxhanskann á lofti og í vörn,“ þegar átti að ræða og reyna að taka á ósættinu innan deildarinnar. Þá hafi Aldís tekið augljósa afstöðu með annarri fylkingunni innan deildarinnar að sögn Öldu.

Hún hafi því skilið vel þá ákvörðun lögreglustjórans um að færa Aldísi til í starfi tímabundið til að ljúka undirbúningsvinnu við innleiðingu breytinganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert