Byggja þarf nýja brú yfir Steinavötn

Brúin á Steinavötnum er svo illa farin að byggja þarf …
Brúin á Steinavötnum er svo illa farin að byggja þarf nýja brú. Eru starfsmenn Vegagerðarinnar þegar byrjaðir að vinna að því að koma upp bráðabirgðabrú. Kort/Map.is

Brúin á Steinavötnum er svo illa farin að byggja þarf nýja brú að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Eru starfsmenn Vegagerðarinnar þegar byrjaðir að vinna að því að koma upp bráðabirgðabrú.

Þjóðvegur 1 er enn lokaður bæði við Hólmsá á Mýrum þar sem vegur er í sundur, og við Steinavötn í Suðursveit þar sem brúin hefur laskast. Athugun Vegagerðarinnar hefur leitt í ljós að brúin við Steinavötn er svo illa farin að byggja þarf nýja brú.

Þegar er hafist handa við að koma upp bráðabirgðabrú og eru jarðvegsframkvæmdir við hana hafna og hefst bygging brúarinnar síðan um leið og aðstæður leyfa.

„Hringvegurinn verður því lokaður allri umferð þar til tengingu hefur aftur verið komið á. Áætlaður byggingartími bráðabirgðabrúar er um ein vika ef allt gengur að óskum,“ að því er segir í frétt Vegagerðarinnar. 

Mikil pressa frá ferðaþjónustufyrirtækjum

Mikil pressa er á að vegasamband komist á að nýju, að því er Friðrik Jón­as Friðriks­son formaður svæðis­stjórn­ar björg­un­ar­sveita á Suðaust­ur­landi, sagði í sam­tali við mbl.is í morgun.

Sagði hann þetta ekki síst eiga við um ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækin þar út frá, enda sæki þau mikið í þjón­ustu frá Höfn í Hornafirði. „Verk­efni dags­ins í dag verður kannski að sjá hvort menn ætla að setja upp flutn­inga yfir ána eða hvað þeir ætla að gera,“ sagði Friðrik.

Hálendisvegir varasamir vegna hugsanlegra vatnsskemmda

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er vegur 966 í Breiðdal einnig í sundur vegna vatnsskemmda, alveg innst í dalnum - og þá er ófært upp í Laka og Þakgil. Sums staðar hefur runnið úr vegköntum og fólk er því beðið að sýna aðgát við akstur. 

Einnig bendir Vegagerðin á að hálendisvegir geta verið varasamir vegna vatnsmagns í ám og hugsanlegra vatnaskemmda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert