Thomas Möller fær 19 ára dóm

Thomas Möller Olsen leiddur fyrir dómara í ágúst.
Thomas Möller Olsen leiddur fyrir dómara í ágúst. mbl.is/Eggert

Grænlendingurinn Thomas Möller Olsen hefur verið dæmdur til 19 ára fangelsisvistar fyrir að hafa myrt Birnu Brjánsdóttur 14. janúar á þessu ári. Dómur þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness nú rétt í þessu. Hann er einnig dæmdur til að greiða tæpar 29 milljónir króna í málskostnað og bætur.

Sá tími sem Thomas Möller hefur setið í varðhaldi kemur til frádráttar refsingunni.

Brjánn Guðjónsson, faðir Birnu, fær rúmar 4 milljónir króna í skaðabætur en móðir hennar, Sigurlaug Hreinsdóttir, um 3,5 milljónir króna í bætur. Verjandi Thomasar fær rúmlega 20 milljónir króna.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sést hér til hægri á myndinni í …
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sést hér til hægri á myndinni í dómsal í dag. mbl.is/Hanna

Héraðssaksóknari ákærði Thomas Möller fyrir manndráp, samkvæmt 211. grein almennra hegningarlaga, en hann var einnig ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, sem varðar við 173. grein  sömu laga. Thomas var sakfelldur fyrir bæði brot en í dómnum er ekki gerður greinramunur á refsingunni.

Hann hafði samkvæmt ákæru rúmlega 20 kíló af kannabisefnum til umráða um borð í togaranum Polar Nanoq, þar sem hann var skipverji. Efnin hugðist hann flytja til Grænlands í ágóðaskyni. Saksóknari krafðist þess að Thomas yrði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar og að fíkniefnin yrðu gerð upptæk.

Foreldrar Birnu kröfðust þess að Thomas greiddi þeim samtals 21 milljón krónur í miskabætur. Þá kröfðust þau þess að maðurinn greiddi útfararkostnað að fjárhæð 761 þúsund krónur.

Refsiramminn fyrir manndráp er ævilangt fangelsi en algengast er að menn séu dæmdir í 16 ára fangelsi. Við smyglinu liggur allt að 12 ára fangelsisrefsing.

Thomas hefur verið í fangelsi síðan 19. janúar.

Birna Brjánsdóttir hvarf aðfaranótt laugardagsins 14. janúar á þessu ári. Lík hennar fannst átta dögum síðar, eða 22. janúar, í fjörunni við Selvogsvita í Ölfusi. Hún var aðeins tvítug þegar hún lést.

Ekki liggur fyrir hvort dómnum verður áfrýjað til Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert