Íslenskan er hans mál

Halldór Nguyen er með gríðarlega góðan orðaforða í íslensku og …
Halldór Nguyen er með gríðarlega góðan orðaforða í íslensku og örugglega betri en margir þeir sem eru fæddir hér. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halldór Nguyen var 25 ára gamall þegar hann kom hingað til lands fyrir 38 árum. Hann er farinn að hugsa á íslensku enda hefur hann búið lengur á Íslandi en í Víetnam. „Þetta gerist ósjálfrátt,“ segir Halldór.

Halldór hét Ho Van Nguyen en á þeim tíma sem hann kom til Íslands var öllum sem hingað fluttu gert að taka upp íslenskt nafn þannig að hann hefur heitið Halldór í áratugi.

Halldór reyndi að flýja frá Saigon í þrígang en flóttinn tókst loksins árið 1979 og greiddi hann smyglurunum fyrir í gulli enda ekki hægt að útvega Bandaríkjadali í Víetnam á þessum tíma. Halldór var fjóra mánuði í flóttamannabúðum sem er stuttur tími miðað við marga þá sem hingað hafa komið, segir hann. 

Í apríl 1975 náðu Norður-Víetnamar yfirráðum yfir öllu landinu og innleiddu kommúnistastjórn í Suður-Víetnam þaðan sem Halldór er. Halldór var í hagfræðinámi í háskólanum í Saigon en varð að hætta því eftir að kommúnistar náðu völdum. „Þeir voru ekkert hrifnir af hagfræðinni sem var kennd og einfaldlega bönnuðu hana,“ segir Halldór.

Greitt fyrir með 12 gullstykkjum

Kínverjar fengu á þessum tíma að fara til síns heima gegn gjaldi. Halldór notfærði sér þetta og fékk fölsuð skilríki þar sem hann var sagðist vera  kínverskur. Fyrir flóttann greiddi Halldór með tólf gullstykkjum.

Björn Friðfinnsson var formaður flóttamannaráðs RKÍ á áttunda áratugnum þegar tekið var á móti hópum flóttamanna frá Víetnam og fór hann að hitta hópinn sem hingað kom ytra ásamt Birni Þorleifssyni, starfsmanni Rauða krossins.

Þegar hann bjó í Víetnam hafði Halldór heyrt um Skandinavíu og ríkin þar en ekki um Ísland. Halldór minnist þess að þegar hann hitti þá hafi annar þeirra spurt hvort hann vissi eitthvað um Ísland.

Vildi koma þegar ég vissi að hér væri fólk frjálst

„En ég vissi ekki neitt og svaraði neitandi. Viltu koma þangað spurði Björn mig – ég get ómögulega munað hvor þeirra það var enda hétu þeir báðir Björn – og ég svaraði já, já eftir að hafa spurt hvort Íslendingar væru frjálsir. Því það var ekki hægt að búa í Víetnam undir stjórn kommúnista.“

Bátafólki komið til bjargar á flóttanum frá Víetnam á áttunda …
Bátafólki komið til bjargar á flóttanum frá Víetnam á áttunda áratugnum. Wikipedia

Systir Halldórs lést á flóttanum yfir til Malasíu er báturinn sem hún var með sökk. Hún reyndi flótta eftir að Halldóri tókst að komast til Malasíu en að vetri til sem er mjög hættulegt enda iðulega vont í sjóinn, segir Halldór. Einhverjir þeirra sem voru um borð í sama báti lifðu af og þannig frétti fjölskyldan af andláti hennar. Bróðir hans býr í Bandaríkjunum en systir hans í Frakklandi.

Alls voru 34 víetnamskir flóttamenn í hópnum sem Halldór kom í en þetta var fyrsti hópurinn af þremur sem kom þaðan. Halldór þekkti engan í hópnum og segir að það hafi verið kostur að vera ungur.

„Ég var bara 25 ára og það var svo gaman að koma hingað til Íslands. Björn kom með bók út með myndum af Íslendingum og ég bara starði. Íslendingar eru svo fallegir,“ segir Halldór.

Hluti flóttamannanna sem hingað komu frá Víetnam.
Hluti flóttamannanna sem hingað komu frá Víetnam. mbl.is/Emilía Björg

Hann hóf nám við Iðnskólann í Reykjavík árið eftir að hann kom hingað og nam vélvirkjun. Að námi loknu starfaði Halldór hjá Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar og starfaði þar í 14 ár. Hann lauk síðar námi í tölvunarfræði og hefur starfað á því sviði um árabil. Meðal annars hefur hann gefið út tölvuorðabók fyrir Víetnama sem vilja læra íslensku. Auk þess er að finna á vefnum margvíslegan fróðleik fyrir Víetnama varðandi Ísland og íslenskt samfélag. Til að mynda varðandi þjónustu stofnana og fleira.

Byrjaði að lesa barnabækur

Íslenskunámið gekk þokkalega segir Halldór en í fyrstu byggði námið á barnabókum sem Halldór keypti. Átti hann hátt í 100 barnabækur á íslensku. Hann fór síðan að lesa dagblöðin og loks bækur. Þetta skilar sér í miklum orðaforða Halldórs og er hann betri en margra þeirra sem eru bornir og barnfæddir Íslendingar.

Wikipedia/ U.S. Navy

Þrátt fyrir að vera með stúdentspróf frá Víetnam og að vera langt kominn í háskólanámi þegar hann kom til Íslands var ekki tekið mark á víetnömskum prófgráðum hér á landi og ef Halldór hefði viljað halda áfram háskólanámi þá hefði hann þurft að hefja menntaskólanám að nýju.

Saigon í dag.
Saigon í dag. Ferðavefur Saigon-borgar.

Annar úr hópnum, Jón Búi, var líka í Iðnskólanum á sama tíma og Halldór og þar sem hann hafði kynnst íslenskri stelpu þá var hann fljótari að læra alls konar orð og hugtök en Halldór. Jón Búi kenndi síðan Halldóri það sem hann hafði lært af vinkonu sinni og segir Halldór að nýyrðakennslan hafi að mestu farið fram á leiðinni til og frá skóla og í frímínútum.

Eigum okkar fjölskyldu hér

Árið 1995 fór Halldór í heimsókn til Víetnam ásamt hópi Íslendinga vegna verkefnis í byggingariðnaði sem hann veitti aðstoð við. Hann segir að það hafi verið skrýtin tilfinning og sér hafi liðið eins og útlendingi í sínu gamla heimalandi. Allt var svo breytt frá þeim tíma sem hann flúði land. Halldór fór síðast til Víetnam árið 2002 og hin síðari ár hefur hann velt fyrir sér að flytja þangað aftur en við litla hrifningu eiginkonunnar, Maríu Ha Ngo, en hún vill hvergi annars staðar búa en hér. „Við eigum alls sex börn og fjölskylda okkar er hér,“ segir Halldór.

„Þegar maður eldist þá hvarflar hugurinn þangað sem ræturnar eru og ég gæti alveg hugsað mér að eignast íbúð í Víetnam og vera þar um vetur en hér á Íslandi á sumrin. En auðvitað viljum við vera þar sem afkomendur okkar eru og það er hér á Íslandi,“ segir Halldór.

Hjónin María Ha Ngo og Halldór Nguyen.
Hjónin María Ha Ngo og Halldór Nguyen. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segist upplifa sig sem Íslending að öllu jöfnu nema þegar fólk horfir á hann og gerir ráð fyrir að hann sé útlendingur vegna útlitsins.

„Það kemur ekki upp í hugann á mér að ég sé útlendingur nema þegar fólk glápir á mig þrátt fyrir að ég tali reiprennandi íslensku,“ segir Halldór.  Hann hefur ekki orðið mikið var við fordóma á Íslandi nema þegar fólk er að skemmta sér og er undir áhrifum áfengis. 

Bréfberinn Halldór

Miklar breytingar hafi orðið á viðhorfum Íslendinga til útlendinga frá því hann kom hingað fyrir 38 árum. „Nú hafa flestir Íslendingar ferðast utan og hingað hafa leitað fleiri innflytjendur og fólk ferðast í æ ríkari mæli til Íslands.“

Víetnamar í íslenskutíma eftir komuna hingað til lands.
Víetnamar í íslenskutíma eftir komuna hingað til lands.

Undanfarin ár hefur Halldór starfað sem bréfberi og hann segir að það hafi gjörbreytt heilsufarinu til hins betra. [innskot blm: Það var ánægjulegt að heyra Halldór nota orðið bréfberi í samtalinu því það er orðið algengara að fólk tali um að bera út póst í dag.] 

Hann hafði glímt við þráláta bakverki en eftir að hann hætti að sitja við tölvu allan daginn og fór bera út bréf fótgangandi í nokkrar klukkustundir á dag hurfu verkirnir.

Auk þessa kennir Halldór íslensku við málaskólann Mími. „Ég kenni ekki bara íslensku heldur líka hvert fólk á að snúa sér, svo sem þegar sótt er um dvalarleyfi og fleiri hagnýt atriði fyrir fólk sem býr eða dvelur hér á landi. Eins fer ég yfir launaseðla fyrir fólk sé þess óskað því margir sem eru nýkomnir hingað þekkja ekki réttindi sín hér á landi,“ segir Halldór.

„Ég vil þakka Íslendingum og Íslandi að hafa tekið svona vel á móti okkur og að hafa leyft okkur að koma og veitt okkur þetta tækifæri,“ segir Halldór sem kom hingað í þriðja hópi flóttafólks sem íslensk stjórnvöld tóku á móti. Fyrsti hópurinn kom frá Ungverjalandi árið 1956 en annar hópurinn frá Júgóslavíu árið 1959.

Halldór Nguyen hefur búið á Íslandi í 38 ár og …
Halldór Nguyen hefur búið á Íslandi í 38 ár og hann er þakklátur Íslendingum að hafa tekið svo vel á móti honum og öðrum flóttamönnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslensk stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um móttöku fimmtíu flóttamanna árið 2018. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu þessa efnis á fundi sínum í ágúst. Ákvörðunin byggist á tillögum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og íslensku flóttamannanefndarinnar.

Miðað er við að stærstur hluti flóttafólksins sem tekið verður á móti komi úr flóttamannabúðum í Líbanon og Jórdaníu en einnig verði tekið á móti fimm til tíu hinsegin flóttamönnum sem dvelja í flóttamannabúðum í Kenýa. Staða hinsegin flóttafólks er sérstaklega viðkvæm þar sem fordómar gagnvart hinsegin fólki eru almennt miklir í Afríku og því algengt að þetta fólk og fjölskyldur þess sæti einnig ofsóknum og ofbeldi þegar í flóttamannabúðirnar er komið.

Stríðsátökin í Sýrlandi hafa nú staðið frá því í byrjun árs 2011 og eru afleiðingar þeirra víðtækar, bæði fyrir sýrlenska borgara, nágrannaríki og flóttafólk um heim allan. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) skilgreinir alls 22,5 milljónir einstaklinga sem flóttamenn, þar af er 5,1 milljón Sýrlendingar og eru flestir þeirra staðsettir í nágrannaríkjum Sýrlands.

Á undanförnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á að aðstoða sýrlenskt flóttafólk enda hlutfall Sýrlendinga meðal flóttamanna á heimsvísu mjög hátt. Þá er mikill ótti við að átökin í landinu breiðist út til nágrannaríkjanna og því hefur verið reynt að létta álagi af þeim ríkjum. Af þeim 125.835 einstaklingum sem fluttust sem svokallað kvótaflóttafólk til öruggra ríkja árið 2016 voru Sýrlendingar 47.930 eða 38% alls kvótaflóttafólks.

Í ljósi þess mikla neyðarástands sem hefur myndast vegna stríðsátaka í Sýrlandi hefur flóttafólk frá öðum ríkjum lent í enn frekari biðstöðu en í því sambandi má nefna að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að 1,2 miljónir einstaklinga þurfi að komast til öruggs ríkis á næsta ári, þar af um 530.000 frá Mið-Austurlöndum og 545.000 frá Afríku.

Með framangreint í huga fór flóttamannanefnd þess á leit við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að koma með tillögur til íslenskra stjórnvalda um hvar framlag Íslands vegna móttöku flóttafólks myndi nýtast best á komandi ári. Niðurstaða flóttamannanefndar og ákvörðun stjórnvalda um móttöku flóttafólks á næsta ári byggist á þeirri tillögu.

Næstu skref felast í því að upplýsa Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Stofnunin leggur í framhaldi af því fram upplýsingar um þá einstaklinga sem hún telur koma til greina að bjóða til Íslands og er unnið úr þeim upplýsingum hér á landi, meðal annars með aðkomu Útlendingastofnunar. Þegar fyrir liggur hvaða einstaklingum verður tekið á móti og þar með upplýsingar um samsetningu hópsins, aldur, fjölskyldusamsetningu og fleira tengt aðstæðum þeirra og þörfum semur velferðarráðuneytið við tiltekið sveitarfélag eða sveitarfélög um móttöku fólksins.

Stefnt er að því að það flóttafólk sem boðið verður til landsins komi hingað snemma á næsta ári.

mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert