Enginn einstaklingur stærri en flokkurinn

Sigurður Ingi Jóhannson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Golli

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að það sé eftirsjá að því fólki sem hefur yfirgefið flokkinn undanfarna daga. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður flokksins, yfirgaf flokkinn og stofnaði Miðflokkinn, og hafa einhverjir framsóknarmenn fylgt fyrrverandi formanninum.

„Það er eftirsjá að og dapurlegt að fyrrverandi formaður og forsætisráðherra telji að hann geti ekki starfað innan flokksins,“ sagði Sigurður Ingi í Silfrinu á Rúv í morgun. Hann sagðist telja að klofningurinn í flokknum hefði orðið til í fyrrasumar þegar ljóst var að flokksmenn hefðu haft mismunandi afstöðu til þess hvort Sigmundur væri maðurinn til að leiða flokkinn áfram.

Varði Sigmund Davíð manna harðast

Í því umróti kallar grasrótin fram flokksþing og það sem mér verður á, í augum þeirra sem hafa yfirgefið flokkinn, er að hlusta á grasrótina og segja að í stjórnmálaflokki gera menn út um ágreining með lýðræðislegum hætti,“ sagði Sigurður Ingi sem var kosinn formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi fyrir ári.

Hann sagði að eftir Kastljós-þáttinn síðasta vor þar sem fjallað var um eignarhaldsfélagið Wintris hefði þingmönnum flokksins þótt sem formaðurinn hefði yfirgefið stefnu hans. „Flokkurinn vildi málefni fram yfir manninn. Enginn einstaklingur er stærri en flokkurinn,“ sagði Sigurður Ingi.

„Ég varði hann [Sigmund Davíð] manna harðast í fjóra mánuði,“ sagði Sigurður Ingi og bætti við að Sigmundi hefði ekki tekist að endurheimta traustið. „Hann viðurkenndi ekki mistök.“

Er svart hvítt og hvítt svart?

Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, yfirgaf Framsóknarflokkinn fyrir helgi og hélt því fram að hreinlyndið í flokknum væri á undanhaldi og einhver annarleg öfl hefðu tekið forystu.

Sigurður Ingi þvertók fyrir að standa í einhverju baktjaldamakki. „Það er með ólíkindum ef menn halda slílku fram. Mér hefur fundist umræðan af hálfu þessa fólks vera á þá leið að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Mér finnst að lýðræðisleg umræða innan flokks eigi að fara fram innan flokks. Þetta snerist í raun og veru um hver ætti að leiða flokk og ef menn fengju ekki sínu framgengt þá stofnuðu þeir annan flokk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert