Leggja fram kærur vegna veiðimennsku

Samtökin Jarðarvinir vilja lengja griðatíma hreindýrakálfa með mæðrum sínum.
Samtökin Jarðarvinir vilja lengja griðatíma hreindýrakálfa með mæðrum sínum. Sigurður Ægisson

Samtökin Jarðarvinir hafa lagt fram tvær kærur til embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Kært er vegna meintra brota á lögum um dýravelferð, við framkvæmd veiða á hreindýrum og rjúpum.

Ole Anton Bieltvedt, stofnandi Jarðarvina, segir að ekki sé farið að lögum um dýravelferð í málefnum villtra dýra hérlendis, en hann stofnaði samtökin ásamt fjölskyldumeðlimum sínum í sumar.

 „Við Íslendingar erum gömul veiðimannaþjóð og það situr enn í mönnum að dýrin séu bara eins og hlutir. Menn auðvitað þurftu að drepa fyrr á árum, til að komast af, en nú er þetta bara orðið sport og skemmtimál. Tilfinningaleysið er enn til staðar,“ segir Ole Anton í samtali við mbl.is.

Kæra vegna hreindýraveiða beinist að Kristínu Lind Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar og Björt Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, og snýr meðal annars að því að hreinkýr séu skotnar of snemma frá kálfum sínum.

Í kærunni segir að kálfarnir þurfi á móðurmjólk að halda í allt að sex mánuði, en þegar hreindýraveiðitímabilið hefjist hinn 1. ágúst séu kálfarnir eingöngu um tveggja mánaða gamlir.

Það telja Jarðarvinir að brjóti í bága við lög um dýravelferð nr. 55/2013, þar sem segir að markmið laganna sé að dýrin „geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt,“ og að bannað sé að „yfirgefa dýr í bjargarlausu ástandi.“

Íslenski hreindýrastofninn telur um 6000 dýr.
Íslenski hreindýrastofninn telur um 6000 dýr. Rax / Ragnar Axelsson

Hreindýraveiðar séu „skemmtiatriði“

Þá telja samtökin einnig að dráp á hreindýratörfum brjóti í bága við sömu lög, þar sem segir að dýr skulu aflífuð „…eftir því sem unnt er án þess að önnur dýr verði þess vör“, en í kærunni segir að tarfar séu gjarnan drepnir er þeir eru með hreindýrahópum.

Einnig segja Jarðarvinir í kæru sinni að hreindýraveiðar brjóti í bága við lög um dýravelferð, þar sem þær séu ekki gerðar af nauðsyn, heldur séu fyrst og fremst skemmtiatriði þeirra sem þær stunda, en í lögunum segir að aflífun dýra sé ekki heimil sem skemmtiatriði.

„Ef þröngt væri um hreindýrin á Austfjörðum og næring ófullnægjandi, myndu þau sjálfkrafa dreifa sér víðar um landið. Því er ekki fyrir að fara. Hreindýr eru meinlaus og skaðlaus dýr, sem prýða og auðga náttúru landsins og lífríki,“ segir í kærunni.

Rjúpur á flögri í grennd við Hádegismóa.
Rjúpur á flögri í grennd við Hádegismóa. Sverrir Vilhelmsson

Segja rjúpnaveiðar með haglabyssum ómannúðlegar

Kæra Jarðarvina vegna rjúpnaveiða beinist að Jóni Gunnari Ottóssyni, forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, Kristínu Lind Árnadóttur hjá Umhverfisstofnun og Björt Ólafsdóttur umhverfisráðherra.

Í kærunni segir að Jarðarvinir telji rjúpnaveiðar með haglabyssu brjóta í bága við lög um dýravelferð, þar sem segir að dýr skuli „…aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti…“, vegna þess að fjöldi rjúpna særist og limlestist án þess þó að drepast strax, er veiðimenn skjóti með haglabyssum að þeim.

Þá telja samtökin að rjúpnaveiðar séu eingöngu „skemmtiatriði“ veiðimanna, líkt og hreindýraveiðar og kæra því einnig vegna þess meinta lagabrots.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert