Dómgreindarleysi er stundum viðurkennt

Kári Stefánsson á Nordica í dag.
Kári Stefánsson á Nordica í dag. mbl.is/Golli

„Ég á erfitt með að tala um fíkn og pólitík án þess að verða orðljótur þegar ég tala um pólitík,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, þegar rætt var um fíkn og pólitík á afmælisráðstefnu SÁÁ í dag.

Hann sagði að fíknivandamál gyldu þess, eins og önnur heilbrigðismál hér, að á Íslandi væri engin heildarstefna.

„Það vantar algjörlega í stjórnmálamenn á Íslandi í dag, Katrín er engin undantekning frá því, að sinna þessum málefnum eins og þau eiga skilið,“ sagði Kári en Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, kom upp í pontu á eftir Kára. Hann bætti því við að flest slys hjá ungu fólk væru eftir notkun eiturlyfja og áfengis.

Þingmaður hlýtur að vera á einhverfurófi

Hann sagði afglæpavæðingu kannabis byggjast á þeim misskilningi að aukið aðgengi væri af hinu góða. „Það er það ekki,“ sagði Kári. Hann sagðist að sjálfsögðu ekki vera hlynntur frumvarpi Pawels Bartoszeks, þingmanni Viðreisnar, sem vill lögleiða kannabis.

Frétt mbl.is: Leggur fram frumvarp um lögleiðingu kannabisefna

„Ég held að þetta frumvarp þingmanns Viðreisnar sýni að hann sé svolítið á einhverfurófinu. Ég held að það sé stórhættulegt að gera þetta löglegt.“

Kári hrósaði einnig SÁÁ, þó að hann segði að það væri snúið að hrósa samtökunum. „Mér finnst SÁÁ, sem aðili sem veitir helbrigðisþjónustu, skara fram úr á öllum sviðum þó að það sé einkarekið. Það er slæmt fyrir gamlan sósíalista að viðurkenna.“

Hann sagði að umræðan um áfengi væri oft nokkuð furðuleg. „Það er bannað að keyra fullur því það tekur af okkur dómgreind. Samt máttu vera dómgreindarlaus hér og þar og það er viðurkennt að vera dómgreindarlaus í fínum veislum. Þetta finnst mér alveg með ólíkindum,“ sagði Kári.

Það eru alltaf sömu málin sem fá alla athyglina

„Fíkn er pólitískt viðfangsefni sem fylgir ekki bara kostnaður í krónum heldur ómældur samfélagslegur kostnaður,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.

Hún sagði að viss mál fengju athygli í fjölmiðlum og það væru alltaf sömu málin.

„Lögleiðing kannabis og afnám áfengis í búðir virðist það eina sem fær athygli fjölmiðla. Það fær minni athygli hversu mikið skref aftur þetta væri. Þar er vitnað í fjöldann allan af sérfræðingum og það er í raun og veru stórfurðulegt að þær umsóknir séu kallaðar léttvægar,“ sagði Katrín.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Golli

Hún sagðist hafa gert rannsókn fyrir nokkrum árum á því hvernig talað væri um fíkn í íslenskum bókmenntum. „Það kom mér á óvart að þetta eru úti um allt, þetta er svo ofboðslega ríkt vandamál í okkar samfélagi. Við eigum í vandræðum með að tala um vímu og fíkn, það er ríkt að tala um viljastyrk fólks og viðurkenna þetta ekki sem raunverulegan sjúkdóm,“ sagði Katrín og bætti aðeins við um umræðu um svokallað áfengisfrumvarp:

Alltaf sömu útlanda-rökin

„Það er oft sagt að fólk hafi komið til útlanda, ekki séð neinn fullan og þá hljóti þetta að vera í lagi. Horfum á tölurnar. Hér erum við með öflugar forvarnir, aðgengi er minna en til að mynda í Danmörku og þar er unglingadrykkja miklu meiri.“

Katrín sagði að stundum væri þetta kallað frelsissjónarmið. „Einn ágætur maður sagði að þetta snerist ekki bara um frelsi til áfengis heldur líka frelsi frá áfengi. Þeir sem glíma við fíknina vilja fá frí og frelsi frá áfengi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert