Neyðarsöfnun fyrir börn rohingja

Ljósmynd/UNICEF

Samtökin UNICEF á Íslandi hafa hafið neyðarsöfnun til aðstoðar börnum úr röðum rohingja en á síðastliðnum vikum hafa yfir 429 þúsund rohingjar flúið ofbeldisöldu í Rahkine-héraði í Búrma og leitað skjóls í Bangladess, þar af um 60% börn.

Þúsundir til viðbótar koma örmagna í bátum eða fótgangandi yfir landamærin á hverjum einasta degi, að því er segir í tilkynningu frá UNICEF. Samtökin eru á staðnum til að veita lífsnauðsynlega neyðaraðstoð í bráðabirgðaflóttamannabúðum sem hafa byggst upp á landamærum Bangladess og Búrma.

Ljósmynd/UNICEF

„Þörfin er yfirþyrmandi, börnin eru hrædd, veik og svöng og þurfa öryggi og vernd. Við hjá UNICEF á Íslandi höfum þegar ákveðið að senda rúmar fimm milljónir til Bangladess, þökk sé stuðningi heimsforeldra, en ljóst er að mikil þörf er fyrir stórauknar neyðaraðgerðir á svæðinu”, segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Bráðabirgðaflóttamannabúðirnar sem hafa byggst upp í Cox Bazar eru á einu viðkvæmasta svæði Bangladess þar sem flóð og náttúruhamfarir eru algeng. Hætta er á að smitsjúkdómar breiðist hratt út ef ekki er brugðist við strax. Auk þess er mikill skortur á vatni, mat og öruggu skjóli fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Við biðlum því til almennings að hjálpa okkur að veita þessum börnum þá aðstoð sem þau þurfa,” segir Bergsteinn.

Ljósmynd/UNICEF

UNICEF áætlar að á milli þrjú og fjögur þúsund börn séu alvarlega vannærð og þurfa þau að fá meðhöndlun tafarlaust. Meira en þúsund börn eru í mjög viðkvæmri stöðu eftir að hafa  orðið viðskila við fjölskyldur sínar og eiga á hættu að vera misnotuð.

Með því að senda sms-ið UNICEF í númerið 1900 renna 1.500 krónur til neyðaraðgerða UNICEF. Einnig er hægt að leggja inn á reikning 701-26-102050, kt 481203-2950.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert