Sérsveitarmenn ruddust inn í herbergi Soffíu

AFP

Soffía Theódóra Tryggvadóttir, starfsmaður fyrirtækisins NetApp Iceland, er stödd á Mandalay Bay hótelinu í Las vegas, þar sem byssumaður hóf skotárás á 32. hæð hótelsins klukkan 22:30 að staðartíma, eða klukkan 5:30 í morgun að íslenskum tíma. Yfir 50 eru látnir og meira en 200 særðir eftir árásina, en árásarmaðurinn skaut frá hótelinu á tónleikavettvang við hliðina á þar sem kántrítónleikar stóðu yfir.

Soffía, sem er stödd á 4 hæð hótelsins, varð ekki vör við árásina sjálfa en vaknaði við að forstjóri fyrirtækisins, sem einnig er staddur á hótelinu, hringdi í hana. Hann er staddur á veitingastað á efstu hæðum hótelsins, ásamt tveimur öðrum starfsmönnum NetApp, þar sem sérsveitin hefur læst gesti inni af öryggisástæðum. Þeim er þó haldið upplýstum. Alls eru fimm starfsmenn á vegum NetApp á hótelinu og eru allir heilir á húfi.

Soffía er stödd á 4 hæð Mandalay Bay hótelsins í …
Soffía er stödd á 4 hæð Mandalay Bay hótelsins í Las Vegas.

„Fyrir um klukkutíma síðan ruddust fimm sérsveitarmenn inn á hótelherbergið mitt með þvílíkum látum. Þeir opnuðu hurðina og beindu strax að mér byssum. Þeir eru greinilega ennþá að leita að einhverri konu sem var með árásarmanninum,“ segir Soffía, en henni var eðlilega mjög brugðið. Hún vissi engu að síður að von var á lögreglunni. „Þau sem eru uppi á veitingastaðum voru alltaf að segja mér hvað sérsveitarmennirnir voru að segja, hvenær þeir ætluðu að skoða fjórðu hæð. Þau sögðu mér að „panikka“ ekki því það væri mögulega einhver á fjórðu hæð. Það var fullt af sérsveitarmönnum hérna frammi á gangi.“

Einhver tók í hurðina á herberginu og hristi

Tveimur tímum áður en sérsveitarmennirnir ruddust inn í herbergi Soffíu var hurðin hrist eins og einhver væri að reyna að komast inn. „Ég er því búin að vera hérna í myrkri og passa mig að vera ekki með læti. Ég hef allavega ekki neitt getað sofið. Klukkan er að verða hálffjögur hjá okkur. Við eigum að fara á ráðstefnu á morgun sem verður líklega ekkert af.“

Soffía segist varla hafa trúað vinnufélaga sínum í fyrstu þegar hann færði henni af árásinni. „Fyrsta spurningin var eiginlega hvort þau væru hrædd og hvort ég ætti að vera hrædd. Ég gerði mér ekki grein fyrir alvarleika málsins. Svo hef ég verið að fylgjast með fréttum og það var virkilega óþægileg tilfinning þegar ég sá að enn var verið að skotmanninum inni á hótelinu,“ segir Soffía, en lögreglan felldi árásarmanninn fyrir stundu. Hann er talinn vera heimamaður.

AFP

Soffía segist hafa fundið fyrir ákveðnum létti þegar eftir að sérsveitin yfirgaf herbergið hennar því þá vissi hún að verið var að leita í öllum herbergjum og athuga hvort hæðin væri örugg. „Mér fannst ég aðeins öruggari.“

Aðspurð segist hún lítið vita hvað er að gerast akkúrat núna, en samstarfsfélagar hennar eru að minnsta kosti enn læstir inni á 28. hæð. Hún má sjálf ekki fara út úr herberginu sínu og hyggst fylgjast með nýjustu upplýsingum frá lögreglu í gegnum netið. „Það er alveg hræðilegt að fylgjast með tölum yfir látna hækka,“ segir Soffía að lokum.

Hér má sjá hvar árásarmaðurinn var staddur og hvert hann …
Hér má sjá hvar árásarmaðurinn var staddur og hvert hann skaut. mbl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert