„Fara hamförum í útúrsnúningum“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stofnandi Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stofnandi Miðflokksins. mbl.is/Golli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stofnandi Miðflokksins, segir að „hinir vanalegu grunuðu“ hafi farið „hamförum í útúrsnúningum“ eftir að endanleg niðurstaða kom frá skattayfirvöldum varðandi skattgreiðslur vegna félagsins Wintris sem er í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar Davíðs.

„Alveg er það merkilegt að þegar er komin opinber og endanleg niðurstaða frá skattayfirvöldum, eftir eins og hálfs árs athugun sem við hjón höfðum frumkvæði að, búið að staðfesta að ekki hafi verið reynt að fela neitt og því engar sektir eða álag, 100% viðurkenning á uppgjörsaðferðinni sem endurskoðendurnir lögðu til og þar með endurgreiðsla skatta og inneign (frádráttur) næstu árin, þá skuli „hinir vanalegu grunuðu“ samt fara hamförum í útúrsnúningum,“ skrifar Sigmundur Davíð á Facebook-síðu sína.

Hann segir samt að um forsmekk sé að ræða og hvetur fólk til að fylgjast með viðbrögðunum við því þegar Miðflokkurinn kynni tillögur sínar vegna umbóta á fjármálakerfinu. Þá fyrst verði allt reynt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert