Hver er saga norska skipsflaksins?

Teikning af norska flutningaskipinu Nordpolen sem sökk á Breiðafirði árið …
Teikning af norska flutningaskipinu Nordpolen sem sökk á Breiðafirði árið 1926. mbl.is

Talsvert var fjallað um strand norska flutningaskipsins Nordpolen á Breiðafirði í lok júlí árið 1926 í íslenskum fjölmiðlum á þeim tíma en Landhelgisgæslan fann flak skipsins í síðasta mánuði þegar sjómælingabáturinn Baldur var við mælingar á Breiðafirði. Ekki var áður vitað um nákvæma staðsetningu flaksins samkvæmt upplýsingum frá Gæslunni.

Flutningaskipinu var hleypt af stokkunum 18. september árið 1880 og var því orðið tæplega 46 ára gamalt þegar það fórst. Skipið var upphaflega nefnt Solon og gekk undir því nafni til ársins 1907 þegar það var selt nýjum eigendum sem nefndu það Locksley. Skipið var aftur selt árið 1913 og fékk þá nafnið Jernland. Þremur árum síðar var það selt á nýjan leik og nefnt Starefos. Loks var skipið enn á ný selt árið 1922 og fékk þá nafnið Nordpolen.

Flutningaskipið mun hafa verið um 2000 smálestir að stærð að því er segir í Morgunblaðinu 11. ágúst og álíka stórt og flutningaskipið Gullfoss, sem hleypt var af stokkunum árið 1915 og var fyrsta skip Eimskipafélags Íslands, samkvæmt frétt Morgunblaðsins 31. júlí. Varningur um borð var einkum símastaurar og sement en einnig rúgmjöl og símavír.

Símastaurnarnir áttu að fara á land víðs vegar um land. Þegar skipið kom til Ísland hélt það fyrst til Vestmannaeyja samkvæmt ósk landsímastjóra til þess að hægt yrði að gefa skipstjóranum fyrirskipanir um það hvar staurarnir skyldu settir á land. Skipið átti meðal annars að koma við á Patreksfirði, Flatey, Hagabót, Reykjavík og Hafnarfirði.

Fjallað ítarlega um strandið í Morgunblaðinu

Nordpolen hélt til Patreksfjarðar og tók þar um borð hafnsögumann fyrir Breiðafjarðarhafnirnar, Snæbjörn Kristjánsson hreppstjóra í Hergilsey. Fjallað var ítarlega um strand Nordpolen í Morgunblaðinu 11. ágúst 1926 þar sem vitnað var einkum til dagbókar skipstjóra flutningaskipsins, M. Irgens, þar sem sagði í endursögn blaðsins (upprunaleg stafsetning er látin halda sér):

„Var nú fyrst haldið til Flateyjar og þaðan til Hagabótar með símastaura í Barðastrandarlínuna. Þangað var kominn vjelbátur frá Stykkishólmi til að flytja staurana í land. En veður tók þegar að hvessa og gerði rigningardimmviðri. Vildi báturinn þá eigi bíða lengur og fór sína leið. Þótti nú sýnt, að eigi yrði hægt að skipa staurunum þar á land og lagði þá Hákon alþm. Kristófersson í Haga það til, að skipið færi inn til Brjánslækjar, því að þar myndi vera hlje.

Flak Nordpolen teiknast í þrívídd í úrvinnsluforritum sjómælingasviðs Landhelgisgæslunnar.
Flak Nordpolen teiknast í þrívídd í úrvinnsluforritum sjómælingasviðs Landhelgisgæslunnar. Tölvuteikning/Landhelgisgæslan

Var nú lagt af stað og sá lítið til landmiða, en siglingaleið er þarna ómæld og sá skipstjóri því eigi ástæðu til að taka dýptarmælingar. Þóttust þeir nú halda sömu leið og þeir höfðu komið frá Flatey, þangað til þeir sáu Sauðeyjar. Var nú stefnt á þær um hríð, þangað til leiðsögumaður segir, að komið sje fram hjá öllum skerjum og nú sje hrein siglingaleið til Brjánslækjar. Sá þó ekki til landmiða. En nú var sett á fulla ferð. Fimm mínútum síðar strandar skipið á einhverju skeri, sem þeir eigi vita hvaða sker er. En það mun vera norðvestur af Sauðeyjum.

Skipið hjó nú þarna á skerinu fram eftir degi og fór þá að koma mikill sjór í það, einkum vjelarúmið. Vjelin komst í ólag og varð því að stöðva hana. Hækkaði nú sjór óðum í skipinu og hjó það mikið á skerinu svo að ketillinn riðaði allur og lyftist að framan um 4 þumlunga. Tókst þó síðar að kveikja upp eld í öðru eldstæðinu og koma upp gufu. Var nú dælt um stund og lækkaði þá austurinn að mun. En svo mun skipið hafa brotnað meira um vjelarúmið, því að þar streymdi nú svo mikill sjór inn, að eldurinn sloknaði.

Hákon alþingismaður kom nú út að skipinu og fóru tveir menn með honum til Flateyjar, en hinir urðu einir eftir í skipinu. En þegar svo var komið að skipið var komið í kaf að framan, stigu þeir á skipsbátinn og hjeldu til Brjánslækjar. Seinna var farið á strandstaðinn aftur og var skipið þá sokkið. Liggur það á 9 faðma dýpi og er talið óhugsandi að því verði bjargað. Framburður skipstjóra og annarra skipverja var mjög samhljóða dagbókinni.“

Vissi af skeri á svæðinu en taldi það að baki

Einnig er vitnað í framburð Snæbjörns Kristjánssonar við sjóprófin þar sem hann hafi sagst hafa tekið að sé að vera hafnsögumaður að beiðni Hákonar alþingismanns og landsímastjóra. Hann hafi verið leiðsögumaður á norðanverðum Breiðafirði um tveggja áratuga skeið. Dimmst hafi verið þegar Nordpolen hafi haldið frá Hagabót og aðeins rofað fyrir til Hvammsfjarðar en ekki verið hægt að sjá til lands eins og venjulega.

„Kveðst hann hafa vitað af skeri þarna nálægt Sauðeyjum, en haldið að þeir væri komnir fram fyrir það og eigi geta sagt um hvort skipið hafi heldur strandað á því skeri eða öðru. Þegar þeir komu á standastaðinn síðast, var enn svo dimt veður, að eigi sá til miða á landi. En hann segir, að þeir hafi verið farnir að beygja af siglingaleiðinni til Flateyjar til bakborða, í áttina til Brjánslækjar.“

Fram kemur ennfremur í frétt Morgunblaðsins að þegar Nordpolen hafi strandað hafi nýverið farið fram mikil og dýr viðgerð á skipinu. Það hafi verið tryggt í Noregi en aðeins fyrir altjóni en ekki skemmdum. Henni lýkur á þessum orðum: „Það mun tæplega orka tvímælis að þeir, sem best skyn bera á þessi mál, munu telja það óverjandi að sigla svona stóru skipi á ómældum siglingaleiðum, þar sem fult er af borðum og blindskerjum. Og allra síst hafi það verið rjett, að ætla að sigla skipinu frá Hagabót til Brjánslækjar, enda þótt eigi hefði verið dimm viðri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert