Skiluðu sandinum og steinvölu

Bandarískar mæðgur sendu nýverið Ferðamálastofu poka með sandi í og steinvölu sem þær höfðu tekið ófrjálsri hendi á íslenskri sandströnd í janúar. Báðust þær afsökunar á athæfi sínu og biðja starfsmenn Ferðamálastofu um að koma þessu út í náttúruna á nýjan leik. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Ferðamálastofu en fréttin hefur ratað í erlendar ferðasíður, svo sem Lonely Planet Travel News og Condé Nast Traveler.

„Kæra Ferðamálastofa! Síðastliðinn janúar heimsótti ég Ísland ásamt 11 ára dóttur minni m.a. til að sjá norðurljósin. Við nutum ferðarinnar mjög og urðum ástfangnar af Íslandi! Við vorum svo heillaðar þegar að við heimsóttum eina af svörtu sandströndunum ykkar, að við tókum smávegis af sandi og steinvölu með okkur heim til að sýna kennara dóttur minnar og bekkjarfélögum. Seinna komumst við að því að það er bannað að taka svona minjagripi með sér af ströndunum ykkar eða frá öðrum náttúrustöðum. Okkur þykir afar leitt að hafa gert þetta og skilum hér með bæði sandinum og steininum heim til Íslands. Þar sem Íslands myndaðist í eldsumbrotum geta sandurinn og steinarnir líklega átt heima hvar sem er. Við viljum því vinsamlegast biðja ykkur að koma þessu aftur út í náttúruna fyrir okkur.

Með innilegum þökkum. 
Ykkar Joanne & Evangelina frá Virginia USA.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert