Fagnar niðurstöðu í LÖKE-málinu

Alda Hrönn Jóhannsdóttir.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna niðurstöðu setts héraðssaksóknara í hinu svokallaða LÖKE-máli.

Þar fagnar hún því að málið hafi verið fellt niður enda hafi hún verið ranglega sökuð um að hafa misbeitt valdi í starfi sínu hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Hún segir að málið hafi reynt mjög á sig og fjölskyldu sína.

„Allt hefur þetta vakið mig til umhugsunar um hvort eðlilegt sé að kæra megi fólk persónulega fyrir það eitt að sinna störfum sínum. Vissulega er óheppilegt hvernig fjölmiðlaumfjöllun getur leikið grunaða í viðkvæmum sakamálarannsóknum eins og þeirri sem kærandinn var hluti af. Sérstaklega þegar grunur leiðir ekki til ákæru, dóms, eða eingöngu dóms fyrir eitt kæruefni,“ segir hún í yfirlýsingunni.

Yfirlýsingin í heild sinni:

„Ég fagna því að mál, þar sem ég var ranglega sökuð um að hafa misbeitt valdi í starfi mínu hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, hafi nú verið fellt niður. Ég er enda með öllu saklaus af því sem kærandinn, sakborningur í máli sem ég kom að rannsókn á, sakaði mig um og byggði kæru sína á. Það er mér mikill léttir að settur héraðssaksóknari hafi í annað sinn komist að þessari niðurstöðu enda hefur málið reynt mjög á mig og fjölskyldu mína.

Allt hefur þetta vakið mig til umhugsunar um hvort eðlilegt sé að kæra megi fólk persónulega fyrir það eitt að sinna störfum sínum. Vissulega er óheppilegt hvernig fjölmiðlaumfjöllun getur leikið grunaða í viðkvæmum sakamálarannsóknum eins og þeirri sem kærandinn var hluti af. Sérstaklega þegar grunur leiðir ekki til ákæru, dóms, eða eingöngu dóms fyrir eitt kæruefni.

Það má samt ekki verða til þess að viðkomandi sjái sig knúinn til að reyna að rétta hlut sinn með tilefnislausum kærum á hendur starfsmönnum réttarvörslukerfisins eða lögreglu. Kærum sem reknar eru samhliða í fjölmiðlum af mikilli hörku og gera fólki illmögulegt að sinna störfum sínum á meðan þær eru til meðferðar. Þetta er eitthvað sem fullt tilefni er fyrir löggjafann, stéttarfélög opinberra starfsmanna og fleiri að skoða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert