„Ráðstöfunin lyktar af pólitísku makki“

Landsamband kúabænda gagnrýnir harðlega skipan fulltrúa stjórnvalda í verðlagsnefnd búvara.
Landsamband kúabænda gagnrýnir harðlega skipan fulltrúa stjórnvalda í verðlagsnefnd búvara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ráðstöfunin lyktar af pólitísku makki. Hún þurfti ekkert að gera þetta núna frekar en að bíða með það,“ segir Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda, um skipan nýrra fulltrúa stjórnvalda í verðlagsnefnd búvara. Forysta bænda hefur gagnrýnt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra harðlega fyrir að skipa Þórólf Matthíasson hagfræðiprófessor í nefndina annars vegar, og hins vegar Kristrúnu M. Frostadóttur, hagfræðing hjá Viðskiptaráði. Arnar segir að með þessari skipan sé Þorgerður að reyna að hafa áhrif miklu lengra en hennar umboð nær.

Hann er ósáttur við að ráðherra skuli á síðustu metrum í starfstjórn skipa í nefndina, sem hann segir mjög mikilvæga. Það hefði raun átt að vera löngu búið að skipa í nefndina og hún hefði getað verið tekin til starfa og farin að gera gagn.

Aðspurður hvað hann eigi við með ráðstöfunin lykti af pólitísku makki, svarar hann: „Hún er á einhvern undarlegan hátt að reyna að auka armlengd sína inn í eilífðina. Hún áttar sig auðvitað á því að tímabil viðreisnar er liðið og hún kemur ekki til með að vera ráðherra landbúnaðarmála áfram. Hún er að mínu viti að reyna að valda sem mestu tjóni og mestum usla inni í kerfinu áður en hún fer. Þannig snýr þetta við mér og er greinilega það sem er í gangi,“ segir Arnar og vísar þar til Þorgerðar.

„Sýna yfirgripsmikla vanþekkingu“

Hann er jafnframt mjög ósáttur við ummæli hennar í viðtali á RÚV í gær um að bændir fái ekki að handvelja í nefndina. En hún sagði jafnframt að taka þyrfti tillit til fleiri sjónamiða; bænda, neytanda og samfélagsins alls.

Opinber verðlagning er á mjólk á Íslandi og nefndin hefur …
Opinber verðlagning er á mjólk á Íslandi og nefndin hefur það hlutverk að stunda verðbreytingar samkvæmt verðlagsgrunni sem reiknaður er fjórum sinnum á ári. mbl.is/Árni Sæberg

„Þessi ummæli sýna yfirgripsmikla vanþekkingu hennar á kerfinu. Það er alveg ljóst og alveg forskrifað hvernig valið er í nefndina. Samtök atvinnulífs og neytenda hafa frábeðið sér að skipa í sína fulltrúa. Það kemur því í hlut landbúnaðar- og velferðarráðherra. Það er því ljóst hvað þeir eiga marga fulltrúa í nefndinni. Það er deginum ljósara að bændur hafa aldrei handvalið í þessa nefnd. Bændur velja sína fulltrúa í þessa nefnd og stjórnvöld sína. Með þessari framsetningu er hún að drepa málinu á dreif og reynir að láta líta út fyrir að bændur séu eitthvað að frekjast og ætli sér stærri hlut í nefndinni en þeir eiga.“

Arnar segir að fulltrúar bænda í nefndinni gagnrýni skipan ráðherra af augljósum ástæðum. „Þórólfur Matthíasson er yfirlýstur andstæðingur íslenska landbúnaðarkerfisins og nýr formaður er starfsmaður viðskiptaráðs sem hefur verið að dunda sér við að gera gys að íslenskum landbúnaði. Við sættum okkur ekki við svona.“

Hann segir það verða að koma í ljós hvort nefndin geti yfir höfuð starfað. Ef að áðurnefndir fulltrúar geti ekki sest niður með öðrum fulltruúm og sett sig inn í málin þá sé ljóst að enginn samstarfsgrunnur sé til staðar. „Við ákveðum það ekkert að óreyndu en það er ekkert sem bendir til þess að það eigi eftir að ganga sérstaklega vel.“

Óttast að virknin verði ekki sem skyldi 

Aðspurður hvað hann óttast að gerist með skipan þessara fulltrúa, segir Arnar: „Þarna eru fulltrúar komnir inn, sérstaklega Þórólfur, sem hafa gagnrýnt kerfið og finnst það vitlaust. Finnst það ekki fúnkera eins og svona kerfi eigi að gera. Þrátt fyrir það setur hann ekki fram neinar lausnir sjálfur. Það er opinber verðlagning á mjólk á Íslandi og nefndin hefur það hlutverk að stunda verðbreytingar samkvæmt verðlagsgrunni sem reiknaður er fjórum sinnum á ári. Ég óttast að þessi virkni hverfi og að málin verði ekki unnin eins og á að vinna þau.“

Arnar er formaður Landsambands kúabænda.
Arnar er formaður Landsambands kúabænda. Aðsend mynd

Arnar segir hagsmuni neytenda og bænda fara saman og því þurfi að halda til haga. Í síðustu verðlagsnefnd hafi verið fulltrúar frá ráðuneytum sem settu sig mjög vel inn í máln. „Það voru ekki svona pólitískir fulltrúar eins og nú er búið að skipa, enda gekk það samstarf vel. Ég óttast að það verði ekki núna.“

Hann segist yfirleitt vera frekar bjartsýnn maður, en hann ætli sér þó að vera svartsýnn núna fyrirfram. Gangi samstarfið vel, verði það einfaldlega bónus.

Framsóknar- og Miðflokksmenn gagnrýna á Facebook

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur einnig gagnrýnt skipan ráðherra í nefndina og sagði öruggt að valinu yrði breytt við fyrsta tækifæri. Hann tjáði sig um málið á Facebook. „Nú hefur landbúnaðarráðherra handvalið í nefnd um landbúnað - hagfræðing Viðskiptaráðs (sem formann með tvöfalt vægi), varaþingmann Viðreisnar og prófessor sem linnulítið hefur haldið úti árásum og gagnrýni (sem ekki hefur staðist) á kerfi sem hann á nú að vinna eftir. Það er öruggt að ófaglegu og pólitísku handvali Þorgerðar Katrínar verður breytt við fyrsta tækifæri.Þetta heita ófagleg vinnubrögð sem ekki eiga að sjást í nútíma stjórnsýslu og svona vinnubrögð eru ekki boðleg.“

 

Fyrrverandi kollegi hans úr Framsóknarflokknum og stofnandi Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur einnig tjáð sig um málið á Facebook. Í færslu sinni kallaði hann Þórólf einn helsta óvildarmann bænda í opinberri umræðu. Hann sagði bændur geta treyst því að kæmist Miðflokkurinn til áhrifa yrði nefndin skipuð upp á nýtt.

 

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins sem genginn er til liðs við Miðflokkinn, lét ekki sitt eftir liggja á Facebook. Hann var gamansamur í sinni færslu og sagði Þórólf líklega mest leiðrétta mann Íslands af bændasamtökunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert