Samvinna hefur bjargað mannslífi

Um 700 heimilisofbeldismál koma upp árlega hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Um 700 heimilisofbeldismál koma upp árlega hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Samvinna stofnana, sveitarfélaga, fyrirtækja og félagasamtaka er lykilatriði ef á að nást góður árangur í meðferð heimilisofbeldismála. Þá á heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum að vera hafið yfir allt dægurþras pólitíkusa. Þetta er meðal þess sem kom fram á ráðstefnu um samvinnu gegn heimilisofbeldi sem fram fór á Þjóðminjasafni Íslands í dag.

„Byggjum brýr - brjótum múra“ er yfirskrift ráðstefnunnar sem er sú fyrsta af þremur sem Jafnréttisstofa stendur fyrir um heimilisofbeldi. Að loknum erindum þar sem fjallað var um reynslu á þverfaglegri samvinnu í heimilisofbeldismálum, meðal annars í Noregi, og þá jaðarhópa sem eru í mestri áhættu að verða brotaþolar heimilisofbeldis, fóru fram pallborðsumræður. Þar ræddu Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar á Suðurnesjum, Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar, Thelma Björk Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi Kvennaathvarfsins og Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri Bjarkahlíðar, um hvernig megi bæta samvinnu ýmissa aðila gegn heimilisofbeldi.

Kristín Ástgeirsdóttir fyrrv. framkvæmdastýra Jafnréttisstofu stjórnaði pallborðsumræðu um sam­vinnu gegn …
Kristín Ástgeirsdóttir fyrrv. framkvæmdastýra Jafnréttisstofu stjórnaði pallborðsumræðu um sam­vinnu gegn heim­il­isof­beldi í dag. Þátttakendur voru Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar á Suðurnesjum, Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar, Thelma Björk Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi Kvennaathvarfsins og Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri Bjarkahlíðar. mbl.is/Golli

700 heimilisofbeldismál árlega á borð lögreglu

Kerfið í heild sinni varð fljótt að megin umræðuefninu. „Er kerfið sem við erum búin að búa til að virka í dag fyrir fólkið sem þarf á þjónustu okkar að halda?“ spurði Alda Hrönn, og svaraði um hæl: „Ég held að mörgu leyti ekki. Það vantar alla heildstæða þjónustu.“ Hún greindi frá því að 700 heimilisofbeldismál koma upp árlega hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hún krefst breytinga til að komast yfir öll þessi mál. „Kerfið er mannanna verk og við getum breytt því, það breytist ekki sjálfkrafa.“

Anna, mannréttindastjóri borgarinnar, segir að mikilvægt sé að hugsa um jaðarhópa þegar kemur að heimilisofbeldi, svo sem fatlað fólk og konur og börn af erlendum uppruna. „Þessir hópar eru ósýnilegir og það er enginn sem talar fyrir þá. Það er ekki nóg að bjarga börnunum, við verðum að leysa vandann inn á heimilunum.“

Samstarf aðila sem sjá um meðferð heimilisofbeldismála sé þó það sem mestu máli skiptir. „Það er traustið milli fólksins sem situr við borðið eins og við höfum upplifað í verkefnum á höfuðborgarsvæðinu að geta átt samtal við fólk þvert á kerfin. Það hefur gert það að verkum að það hefur örugglega fleira en einu og fleiri en tveimur börnum verið bjargað, bara vegna þess að kerfin hafa talað saman. Það er það sem skiptir mestu máli,“ segir Anna.  

Alda Hrönn tekur undir orð Önnu. „Ég veit að við höfum bjargað mannslífi með því að vinna saman. Við þurfum að finna lausnir, kerfið er ekki eilíft, við getum breytt því og við þurfum að gera það.“

Thelma Björk, félagsfræðingur Kvennaathvarfsins, hefur mestar áhyggjur af því að ekki náist að sinna þeim fjölda mála sem kemur upp. „Málunum fjölgar og fjölgar, en mér finnst vanta fjölgun á fólki sem vinnur í málunum. Ég er ánægð að við erum að beina sjónum að þessu vandamáli, en hvað svo?“

Alda Hrönn segir að heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum eigi …
Alda Hrönn segir að heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum eigi að vera hafið yfir allt dægurþras pólitíkusa. mbl.is/Golli

Samvinnan hefur nú þegar skilað sér

Samvinna gegn heimilisofbeldi er ekki á byrjunarreit og er Bjarkarhlíð skýrt dæmi um það, að mati Rögnu Bjargar, verkefnastjóra Bjarkarhlíðar. „Bjarkarhlíð er nýtt úrræði, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis sem er samstarfsverkefni allra þessara góðu aðila sem eru hér í dag og fleiri því að þangað erum við komin í dag, að vinna saman. Bjarkahlíð byggir á því góða starfi sem hefur verið unnið síðastliðin ár.“

Frétt mbl.is: Tæplega 200 nýtt sér þjónustu Bjarkarhlíðar

Allar eru þær þó sammála um að nýta megi það sem vel er gert til að gera enn betur. Áhugaleysi stjórnvalda á ofbeldismálum var gagnrýnt og voru fyrirlesarar og ráðstefnugestir sammála um að aukinn áhugi stjórnmálamanna og stöðugri stjórnmál almennt verði að vera til staðar svo tekið verði á málum.

„Núna þegar við erum farin að hafa kosningar einu sinni ári erum við endalaust að vinna í hringi og þetta getur ekki gengið svona,“ segir Alda Hrönn. Að hennar mati á meðferð á ofbeldismálum ekki að líða fyrir óstöðugt stjórnmálaástand. „Heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum á að vera hafið yfir allt dægurþras pólitíkusa. Þess vegna verðum við búa til framtíðaráætlanir, hætta að tala og fara að vinna. Við megum ekki gefast upp, við verðum að halda áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert