Hestur Sigmundar er tilvísun í Davíð Stefánsson og Jónas frá Hriflu

Nýtt merki Miðflokksins var kynnt til leiks í gærkvöldi við …
Nýtt merki Miðflokksins var kynnt til leiks í gærkvöldi við misjafnar undirtektir. Ljósmynd/ Samsett

Guðmundur Oddur Magnússon, Goddur, prófessor við Listaháskóla Íslands, segir að hin miklu viðbrögð við nýju merki Miðjuflokks Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sýni hversu táknmál nái að láta hjörtu fara að slá hraðar. 

Íslenski hesturinn „vinalegur en getur risið upp á afturlappirnar“

Merki Miðjuflokksins var kynnt í gær á Facebook-síðu Sigmundar Davíðs. Þar gefur að líta hvítan, prjónandi hest með norðurljós í bakgrunni og Sigmundur ritar til útskýringa: 

„Íslenski hesturinn hefur fylgt Íslendingum frá upphafi. Hann er þjóðlegur og um leið eitt af táknum landsins út á við og hefur myndað sterk tengsl milli Íslendinga og fólks víða um heim.

Hann sameinar sveit og þéttbýli, vinnu og afþreyingu. Íslenski hesturinn þykir skynsamur og þrautseigur. Hann getur staðið af sér storm og harðan vetur. Hann hefur mikla aðlögunarhæfni og þekkir leiðina heim. Kemur mönnum alltaf á leiðarenda þótt leiðin geti verið torsótt og löng.

Íslenski hesturinn er vinalegur en getur risið upp á afturlappirnar þegar hann þarf að sýna kraft sinn og óttaleysi.“

Í kjölfar þess að merkið var kynnt hafa samfélagsmiðlar logað á Íslandi og fólk virðist annað hvort elska eða hata merkið. Goddur segir að þegar hann hafi séð öll viðbrögðin við merkinu á samfélagsmiðlum í gærkvöldi og í morgun þá hafi hann farið að velta fyrir sér hvað lægi þarna að baki. 

Goddur, Guðmundur Oddur Magnússon, er prófessor við Listaháskóla Íslands og …
Goddur, Guðmundur Oddur Magnússon, er prófessor við Listaháskóla Íslands og mikill sérfræðingur um táknfræði. mbl.is/Eggert

Sigmundur alltaf að vitna í fjórða áratuginn

„Þegar upp er staðið þá ertu bara að horfa á hvítan hest sem er að prjóna, með litum norðurljósanna í bakgrunni.  Þetta táknmál leiðir mann hratt á norðurslóðir og til Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi sem orti: 

Þú komst í hlaðið á hvítum hesti,
þú komst með vor í augum þér.
Ég söng og fagnaði góðum gesti
og gaf þér hjartað í brjósti mér.

Ég heyri álengdar hófadyninn,
ég horfi langt á eftir þér.
Og bjart er alltaf um besta vininn
og blítt er nafn hans á vörum mér.

Þó líði dagar og líði nætur,
má lengi rekja gömul spor.
Þó kuldinn næði um daladætur,
þá dreymir allar um sól og vor.

Sigmundur er alltaf að vitna í áratuginn milli 1930 - 40,“ útskýrir Goddur. „Það er áratugur Jónasar frá Hriflu, hann er að vitna í rómantískt myndmál sem er andstæðan við raunsæi. Norðurljósin í bakgrunninum vísa svo beint í Hamraborgina hans Davíðs, „Nóttin logar af norðurljósum.“.“

Goddur segir merkið vísa beint í það sem gamli Framsóknarflokkurinn stóð fyrir. „Það vísar í Framsókn afa og ömmu, flokk sem var uppfullur af hugsjónum, römm er sú taug og allt það. Það er þessi tegund af þjóðernishyggju sem við föllum alltaf fyrir.“ 

Í samtímanum þegar stöðugt er verið að brjóta niður múra milli samfélaga og fólks er Sigmundur að reyna að aðgreina Íslendinga, útskýrir Goddur. „Hann notar þetta rómantíska íslenska myndmál, líkt og hann gerði þegar hann stofnaði ríkisstjórn Bjarna Ben á Laugarvatni, sem er helgireitur Jónasar frá Hriflu.“

Frægir hershöfðingjar eru oft festir í myndlist á baki á …
Frægir hershöfðingjar eru oft festir í myndlist á baki á hvítum hesti. Hér er til dæmis málverk af Napóleon Bónapart eftir franska listmálarann Jacques-Louis David. Ljósmynd/Wikipedia

Hvíti hesturinn er sjálfsmynd Sigmundar

Hesturinn sem prjónar er sjálfsmynd Sigmundar, segir Goddur. „Hann stofnar sjálfur flokkinn, hann er að rísa upp, hann prjónar, hann er riddari á hvítum hesti. Táknmál er lykill að undirmeðvitund fólks og er ekki endilega vitsmunatengt. Þetta er eins og með drauma sem læðast að í hvelfingu hugsana okkar. Táknmál er sterkasta leiðin til þess að ná inn í hjarta fólks og láta hjörtu okkur fara að slá. Þjóðin á eftir að skiptast í tvo hópa og þetta lógó á eftir að skipta henni í tvennt.“

Goddur segir að reyndar hafi Jónas frá Hriflu haft svipaða fagurfræði að leiðarljósi og Adolf Hitler. „Ég hef verið húðskammaður fyrir að benda á það að þeir hafi haft sama smekk. En Jónas frá Hriflu var á undan Hitler þannig að fyrst að hann var ekki undir áhrifum nasismans þá má velta því upp hvort Hitler hafi verið undir áhrifum Jónasar.“

Útfærsla merkisins er eins og ódýrt „seventies“ kitsch

Hvað varðar útfærslu merkisins sjálfs  eða hönnunina segir Goddur þá útfærslu jaðra við kitsch

„Svona einhvers konar ódýrt seventies kitsch sem maður sér til dæmis hjá einhverju nýaldarliði, í draumráðningum til dæmis.“ Margir hafa bent á að merki Miðjuflokksins sé rammsamkynhneigt en Goddur vísar því á bug. „Þá eru menn að rugla hestinum saman við einhyrninginn. Þetta er ekki einhyrningur, það er ekkert horn á þessum hesti. Þá værir þú komin í Pál Óskar og veggjalistina í kvosinni hjá Samtökunum '78. Það er munur á campy og kitsch. Camp er meðvitaður hommakúltúr, þar sem tekin er meðvituð ákvörðun á að gera eitthvað sykursætt. Kitsch er hins vegar eitthvað sem fólk getur ekki gert að.“

Goddur nefnir að lokum að hvítur hestur sé einnig táknmál fyrir dauðann og vísi í opinberunarbók þar sem síðasti hesturinn var hvítur. „En almennt er hesturinn alþjóðlegt tákn fyrir frelsi og þol. Við sjáum styttur af miklum herforingjum á hestum á torgum um alla Evrópu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert