„Við verðum að muna eftir börnunum“

Barnvænleg íhlutun er heiti verkefnis sem fólst í því að …
Barnvænleg íhlutun er heiti verkefnis sem fólst í því að tryggja aðkomu barnaverndarnefndar að heimilisofbeldi þegar börn eru á heimilum. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

„Hvernig eigum við að koma fram við börn sem hafa séð foreldra sína rífast og slást?“ Að þessu spurði Páll Ólafsson, sviðstjóri Barnaverndarstofu, á ráðstefnu um samvinnu gegn heimilisofbeldi sem fram fór í dag á vegum Jafnréttisstofu.

Páll fjallaði um hvernig Barnaverndarstofa hefur innleitt barnvæna þjónustu við vinnslu heimilisofbeldismála. „Við viljum að einhver tali, hlusti og aðstoði börnin,“ segir Páll.

Verkefnið hófst árið 2011 í kjölfar niðurstaðna breskrar rannsóknar þar sem kom í ljós að börn eru gjarnan höfð út undan í meðferð heimilisofbeldismála. Í úttekt lögreglunnar árið 2010 kom í ljós að barnaverndarnefnd hafi ekki komið að lögregluútköllum nema í undantekningartillfellum. Verkefnið, sem fékk heitið barnvænleg íhlutun, fólst því í að tryggja aðkomu barnaverndarnefndar að heimilisofbeldi þegar börn eru á heimilum.

Páll Ólafsson, sviðsstjóri hjá Barnaverndarstofu.
Páll Ólafsson, sviðsstjóri hjá Barnaverndarstofu. Ljósmynd/Af vef TEDxReykjavík, 2015

„Heimilisofbeldi er fjölskylduleyndarmál sem ekki er rætt við aðra utan fjölskyldunnar. En við vildum nota tækifærið þegar lögregla og barnavernd mætir á svæðið,“ segir Páll. Mikilvægt er að tala við börnin. „Þau voru tilbúin til að ræða málin og fá stuðning, þau voru hrædd, en vonuðu öll að ástandið myndi batna.“

Talað var við 300 börn, drengi og stúlkur, íslensk og erlend, og af þeim fengu 120 viðtalsmeðferð. „Börn vilja bara að þetta vonda hætti, að það sé gott að koma heim, að það sé hlustað á þau og vita hvert þau geta leitað ef þetta kemur fyrir aftur,“ segir Páll.  

Stefnir í 10.000 tilkynningar á árinu

Páll talaði einnig um fjölgun tilkynninga til Barnaverndarstofu. „Ef tilkynningum heldur áfram að fjölga endum við í 10.000 tilkynningum vegna 5.000 barna. Það eru 6% barna á Íslandi.“

Vanræksla ungra barna er um 40% tilkynninga og voru þær 579 fleiri 2016 en 2013. „Þetta eru yfirleitt ungir foreldrar, með ung börn í erfiðum aðstæðum,“ segir Páll.

Árlega koma 250-300 börn í Barnahús vegna gruns um að hafa verið beitt kynferðislegu, líkamlegu eða andlegu ofbeldi. Af þeim koma 50-60 börn árlega vegna gruns um að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi eða vegna þess að þau voru vitni að heimilisofbeldi.

Mikilvægt að fækka málum á hvern starfsmann

Páll segir að liður í því að halda uppi barnvænni þjónustu við vinnslu heimilisofbeldismála sé að hlúa að þeim sem vinna í þessum viðkvæma málaflokki.

Í dag eru 53 barnaverndarmál á hvern starfsmann. Alþjóðleg viðmið eru 20-25 barnaverndarmál á starfsmann. Páll benti á að í Noregi er verið að vinna að því að málafjöldi á hvern starfsmann verði um 12 talsins. „Mér finnst að við þurfum að vinna á þennan hátt fyrir börnin og við þurfum að halda áfram að vinna svona fyrir þau og bæta okkur.“

Páll sagðist að lokum vera ánægður með þróun þeirrar vinnu sem hefur orðið í meðhöndlun heimilisofbeldismála. „En við verðum að muna eftir börnunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert