Þarf 372 milljarða í innviði

Sigurður segir að með fjárfestingu í innviðum í dag sé …
Sigurður segir að með fjárfestingu í innviðum í dag sé verið að byggja undir hagvöxt til framtíðar litið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðhaldsþörf innviða hér á landi er metin 372 milljarðar króna eða 15% af landsframleiðslu í ár, samkvæmt skýrslu Samtaka iðnaðarins um ástand innviða.

„Uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða hér á landi er feikilega mikil enda hefur henni ekki verið sinnt sem skyldi á umliðnum árum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í opnu viðtali í ViðskiptaMogga.

Hann segir að mesta viðhaldsþörfin sé í orkuflutningum, vegum, fráveitum og fasteignum ríkisins. Þörfin sé 70 milljarðar í orkuflutningum, 110-120 milljarðar í vegum, 50-80 milljarðar króna í fráveitum og leggja þurfi 76-86 milljarða til að koma fasteignum hins opinbera í gott horf. Að hans mati er óraunhæft að ætla að hið opinbera standi eitt undir svo umfangsmikilli uppbyggingu á innviðum landsins.

Að meðaltali fá innviðir sem skýrslan nær til ástandseinkunnina 3 en einkunnagjöfin er á bilinu 1 til 5. Miðað við þessa einkunn er staða innviða á Íslandi að meðaltali viðunandi, að mati skýrsluhöfunda, en ekki góð. Einkunnin segir að búast megi við umtalsverðu viðhaldi til þess að halda uppi starfsemi þessara innviða og að nauðsynlegt verði að leggja í fjárfestingar í þeim til framtíðar litið. Sigurður segir að verðmæti innviða landsins, litið til heildarendurstofnvirðis, sé áþekkt og heildareignir lífeyrissjóða landsmanna. Með því hugtaki er átt við hvað kosti að reisa aftur sambærilega innviði frá grunni. Endurstofnvirði innviða landsins hefur verið metið 3.493 milljarðar króna. Til samanburðar stóðu heildareignir lífeyrissjóða landsmanna í 3.725 milljörðum króna við lok júlí 2017. „Virði innviða er meira en þessi fjárhæð gefur til kynna vegna þess að innviðir skapa heilmikil verðmæti,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert