Breiðdalsheiði sísti kosturinn

Ökumenn lenda oft á tíðum í slæmum skilyrðum á Breiðdalsheiði.
Ökumenn lenda oft á tíðum í slæmum skilyrðum á Breiðdalsheiði. Ljósmynd/Af Facebook-síðu Tinna Adventure

Leiðin um Breiðdalsheiði er lang sísti kosturinn þegar kemur að legu Hringvegarins um sunnanverða Austfirði. Þetta er faglegt mat Vegagerðarinnar en Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tilkynnti á fundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í síðustu viku að þjóðvegur 1 skuli liggja um firðina.

Þessi ákvörðun hefur verið gagnrýnd, bæði af Austfirðingum og þingmönnum en Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata í Norðausturkjördæmi hefur kallað eftir opnum fundi í umhverfis- og samgöngunefnd vegna ákvörðunar ráðherra.

Niðurstaða Vegagerðarinnar, sem mbl.is hefur undir höndum, byggir á tíu matsþáttum. Þeir eru:

  • Vegalengd frá Djúpavogi til Egilsstaða og Egilsstaðaflugvallar
  • Fjallvegir frá Djúpavogi til Egilsstaða og Egilsstaðaflugvallar
  • Vegalengd frá Djúpavogi til Reyðarfjarðar
  • Fjallvegir Djúpavogi til Reyðarfjarðar
  • Þýðing vega fyrir landbúnað
  • Þýðing vega fyrir fiskiðnað og almenna flutninga
  • Þýðing vega fyrir stóriðju, sjóflutninga og annan iðnað en fiskiðnað
  • Öryggi ferðamanna að vetrarlagi
  • Öryggi ferðamanna að sumarlagi
  • Umferð

Í tveimur þáttum af tíu fær Axarvegur fyrstu einkunn en taka má fram að í dag er annar Breiðdalsheiði því hlutverki að tilheyra þjóðvegi 1. Það er í matsþáttunum vegalengd til Egilsstaða og vegalengd til Reyðarfjarðar.

Ákveðið hefur verið að hringvegurinn muni liggja frá Egilsstöðum um …
Ákveðið hefur verið að hringvegurinn muni liggja frá Egilsstöðum um Fagradal og Suðurfirði, en ekki um Breiðdalsheiði eða Öxi. Kort/Vegagerðin

Breiðdalsheiði fær alltaf verstu einkunn, nema í matsþættinum vegalengd til Egilsstaða, þar sem hún fær miðlungseinkunn. Suðurfjarðavegur fær aftur á móti bestu einkunn í níu flokkum af tíu. Bæði Axarvegur og Suðurfjarðavegur fá bestu einkunn í flokknum vegalengd til Reyðarfjarðar. Frá Djúpavogi til Egilsstaða er leiðin um Suðurfjarðaveg hins vegar lengst af þessum þremur.

Leiðin um Öxi miklu styttri

Forsvarsmenn Djúpavogs hafa lýst þeirri skoðun sinni að þjóðvegur 1 eigi að liggja um nýjan veg um Öxi, sem er 70 kílómetrum styttri en Suðurfjarðaleið, sem ráðherra hefur sagt að eigi að vera forgangsmál. Þeir sem búa á Suðurfjörðum eru hins vegar ánægðari með breytinguna.

Í niðurstöðu Vegagerðarinnar segir að ljóst sé að með nýjum vegi yfir Öxi verði Breiðdalsheiði ekki lengur inni í myndinni sem aðalsamgönguleið. Bent er á að þegar velja eigi milli Axarvegar og Suðurfjarðavegar séu flestir matsþættir Suðurfjarðaleiðinni í hag.

„Miklu máli skiptir matsþátturinn öryggi ferðamanna enda er öryggi á vegum eitt af meginmarkmiðum Vegagerðarinnar. Með hliðsjón af því og þegar litið er til töflunnar hér að ofan leggur Vegagerðin því til að Hringvegur (1) liggi um Fagradal og Suðurfirði,“ segir í niðurlaginu. Við breytinguna lengist hringvegurinn um 10 kílómetra.

Uppfært kl. 13:11: RÚV hefur eftir oddvita Djúpavogshrepps að hann telji samgönguráðherra ekki hafa haft umboð til að taka ákvörðun um legu Hringvegarins um Austurland. Málið hefði þurft að fara fyrir umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og til umsagnar.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig matsþættirnir tíu komu út:

Hér sést að Suðurfjarðavegur kemur lang best út.
Hér sést að Suðurfjarðavegur kemur lang best út. Skjáskot/Vegagerðin
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert