Enn heldur glerþakið

Konur eru innan við þriðjungur kjörinna þingmanna í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, og kynbundinn launamunur er að meðaltali 15%, körlum í vil. Barneignir hafa miklu neikvæðari áhrif á starfsframa og launakjör kvenna en karla og það sama má segja um hækkandi aldur. Reyndar gætir kynjamisréttis á öllum sviðum samfélagsins í löndum OECD, burtséð frá efnahag landanna, og minni framfarir en búist var við hafa orðið á þessu sviði undanfarin fimm ár.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu stofnunarinnar um stöðu jafnréttismála á ýmsum sviðum samfélagsins í aðildarlöndum hennar. Í skýrslunni, sem birt var í gær, segir að setja ætti jafnrétti kynjanna í forgang til að efla hagvöxt og sjálfbærni.

Kynjakvótar öflugt verkfæri

Að mati skýrsluhöfunda OECD eru kynjakvótar öflugt verkfæri til að brjóta glerþakið svokallaða til að fjölga konum bæði í stjórnmálum og í ábyrgðarstöðum á vinnumarkaði. Meðal annarra leiða sem nefndar eru til að draga úr misrétti eru greiðari aðgangur að dagvistun og sveigjanlegur vinnutími.

Fleiri konur en karlar eru með grunnháskólagráðu eða meistarapróf í löndum OECD, en fleiri karlar eru með doktorspróf. Í skýrslunni segir að þó að námsárangur drengja mælist slakari en stúlkna við 15 ára aldur, hafi þeir náð þeim í lestri og tekið fram úr þeim í raungreinum við 27 ára aldurinn.

Staðalmyndum kynjanna eru gerð skil í skýrslunni og þar segir að þær séu hindrun í átt að jafnrétti kynjanna. Fjölmiðlar gegni þar veigamiklu hlutverki og sú staðreynd að minna sé fjallað um konur en karla og að umfjöllunin sé öðruvísi viðhaldi þessum staðalmyndum.

Konur voru 20% þeirra sem sátu í stjórnum fyrirtækja í löndum OECD og þær voru 4,8% forstjóra.

Þá eru konur líklegri en karlar til að vera í hlutastarfi, viðvera karla á vinnustað er talsvert lengri en kvenna en þegar öll vinna er skoðuð, bæði launuð og ólaunuð, þá er vinnudagur kvenna nokkuð lengri.

Margt hefur lagast

En staðan er ekki að öllu leyti slæm og í skýrslunni segir að fyllsta ástæða sé til bjartsýni. Til dæmis hafi launað fæðingarorlof karla nú verið tekið upp í mörgum löndum og þá hafi víða verið skorin upp herör gegn kynbundnum launamun. Konum hafi fjölgað í stjórnum fyrirtækja í 80% af OECD-löndum á árunum 2013-'16.

Þá hafi víða verið vitundarvakning um ofbeldi gagnvart konum og um helmingur OECD-ríkja hefur ýmist tekið upp kynjaða fjárlagagerð eða hyggst gera það. Ísland er eitt þeirra landa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert