„Nú sjáum við ljósið“

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Ljósmynd/Víkurfréttir

Þrátt fyrir að lánardrottnar Reykjanesbæjar hafi ekki samþykkt að fella niður hluta skulda bæjarins og hafnarinnar eins og hafði meðal annars verið lagt upp með þegar viðræður við kröfuhafa hófust fyrir um þremur árum síðan vegna slæmrar skuldastöðu bæjarins, þá segir bæjarstjóri Reykjanesbæjar að niðurstaðan nú sé vel ásættanleg fyrir báða aðila. Hann segir 5-7 aðhaldssöm ár framundan, en að nú sjái fyrir endann á erfiðu fjárhagstímabili og stefnt sé að því að lækka útsvar um næstu áramót.

Fyrir um tveimur vikum síðan tilkynnti bærinn að búið væri að semja um endurfjármögnun skulda Reykjaneshafnar, en það var gert með 3,6 milljarða láni frá Lánasjóði sveitarfélaga. Með þessu var lokanaglinn sleginn í smíði endurskipulags til að ná lögbundnu skuldaviðmiði niður undir 150% árið 2022. Í gær greindi svo vefurinn Sudurnes.net frá því að engin niðurfelling hafi verið á skuldum sveitarfélagsins.

Vextir felldir niður en ekki höfuðstóll

Í samtali við mbl.is staðfestir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, að          enginn höfuðstóll hafi verið færður niður. Aftur á móti hafi allir kröfuhafar utan eins fellt niður vaxtagreiðslur frá 15. október 2015. Segist hann ekki vilja greina frá hvaða aðili það sé, en væntanlega muni það koma í ljós þegar hann reyni innheimtu vaxtanna.

Í maí í fyrra tilkynnti bærinn, sem þá hafði átt í um 18 mánaða samningaviðræðum við kröfuhafa um endurskipulagningu skulda bæjarins, um að ekki næðust samningar og var eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga í framhaldinu gert vart um stöðu mála. Samkvæmt því var næsta skref að skipa fjárhaldsstjórn yfir bænum, en að lokum var ákveðið að taka upp samninga við kröfuhafa að nýju.

Uppbygging í Helguvík hefur verið kostnaðarsöm og skuldir hafnarinnar reyndust …
Uppbygging í Helguvík hefur verið kostnaðarsöm og skuldir hafnarinnar reyndust sveitarfélaginu erfiðar. mbl.is

Í lok síðasta árs var svo tilkynnt að búið væri að semja við kröfuhafa Eignarhaldsfélagsins fasteignar varðandi skuld­ir fé­lags­ins sem lengi hafa verið mjög íþyngj­andi fyr­ir bæj­ar­fé­lagið. Ekki var heldur gert ráð fyrir afskriftum eða niðurfellingum skulda við þá samningagerð.

Tal um niðurfellingar alveg nýr kafli

Kjartan segir að það sé mikilvægt í þessu máli að fundin hafi verið leið sem báðir aðilar hafi getað sætt sig við. „Þetta færir okkur þá niðurstöðu sem við stefndum að og mun lækka skuldir og skuldbindingar sem við stefndum að,“ segir hann. Bendir Kjartan á að ekkert sveitarfélag á Íslandi hafi áður verið í viðlíka stöðu og Reykjanesbær og hingað til hafi lánardrottnar horft á lánveitingar til sveitarfélaga sem trygg lán. Þegar Reykjanesbær hafi svo farið að tala um niðurfellingu skulda hafi það verið alveg nýr kafli í þessum málum hér á landi.

Segir hann að niðurfellingahugmyndirnar hafi þannig verið nýjar fyrir báða aðila, en þegar ljóst var að hún gengi ekki lengra hafi verið byrjað að skoða nýjar leiðir. „Þær skila sömu niðurstöðu fyrir Reykjanesbæ,“ segir Kjartan.

Vaxtaprósenta á lánum hafnarinnar helmingast

Sem fyrr segir er um að ræða 3,6 milljarða endurfjármögnun á skuldum Reykjaneshafnar, en Kjartan segir að með því muni vaxtaprósenta lánanna fara úr um 6% niður í eða undir 3%. Þá hafi leigutími og þar með skuldbinding Reykjanesbæjar við Fasteign ehf. verið styttur sem skili sér í 2,2 milljarða hagræðingu út til ársins 2022.

Félagslegt húsnæði Reykjanesbæjar verður einnig fært undir húsnæðissjálfseignastofnun frá sveitarfélaginu sjálfu, eins og lög um almennar íbúðir heimila frá árinu 2016. Segir Kjartan að með því séu færðar skuldbindingar upp á 2,6 milljarða frá sveitarfélaginu, en Íbúðalánasjóður, sem var einn af kröfuhöfum Reykjanesbæjar, mun samhliða kerfisbreytingum sem hafa verið gerðar á hlutverki sjóðsins, sjá um fjármögnun vegna þessa. Segir Kjartan að skilyrðin séu að félagslega kerfið sé sjálfbært, en til þess hafi nýlega þurft að hækka leigu á slíkum íbúðum. Þrátt fyrir það segir hann leiguverð þeirra vera vel undir almennu markaðsverði.

Við taka 5-7 aðhaldssöm ár að sögn bæjarstjóra, en að …
Við taka 5-7 aðhaldssöm ár að sögn bæjarstjóra, en að þá sé helst verið að horfa til innviðauppbygginga. mbl.is/Sigurður Bogi

Spurður hvort Íbúðalánasjóður muni bjóða hinu nýja félagi sömu lánakjör og sveitarfélaginu hafi boðist segir hann það hluta af samkomulaginu, svo framarlega sem félagið um félagslega íbúðarhúsnæðið sé sjálfbært sem hann telji það nú vera.

5-7 aðhaldssöm ár, en líka lækkun útsvars

Kjartan segir að nú eftir þriggja ára samningalotu við kröfuhafa sé loksins komið að raunverulegum kaflaskilum. „Það er búið að ná niðurstöðu,“ segir hann og bætir við að nú liggi planið fyrir og næsti áfangi sé að innleiða allar þessar lausnir, „láta aðlögunaráætlunina ganga eftir og standa við hana.“

Þrátt fyrir að samningar séu í höfn segir Kjartan þó ekki búið að opna fyrir alla sjóði sveitarfélagsins að nýju heldur taki við 5-7 aðhaldssöm ár. „Nú sjáum við ljósið og tækifærin eru hvergi meiri en í Reykjanesbæ,“ segir Kjartan og bætir við að um áramótin sé ætlunin að lækka útsvarið.

Eiga ekki að koma niður á almennum íbúum

Þá segir hann almenna íbúa ekki eiga að finna mikið fyrir þótt um aðhaldsaðgerðir sé að ræða. Þær muni að mestu fela í sér að haldið verði aftur af nýfjárfestingum í innviðum, en að skólamál, velferðamál og önnur lögboðin þjónusta muni halda sama þjónustustigi.

Þannig segir Kjartan að ekki verði ráðist í byggingu t.d. nýrra íþróttahúsa eða skóla nema brýna nauðsyn beri til. Hann bendir þó á að fjárfesting á hvern íbúa sé töluvert há í Reykjanesbæ og því eigi þetta ekki að hafa mikil áhrif til skemmri tíma.

„Við getum ekki leyft okkur mikið umfram lög og reglur og við munum vanda okkur vel við það og halda vel á spöðunum,“ segir Kjartan. „Ég held að íbúar skilji það vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert