Sveitarfélögum verði fækkað um helming

Mýrdalshreppur myndi ekki uppfylla skilyrðin sem sett eru fram í …
Mýrdalshreppur myndi ekki uppfylla skilyrðin sem sett eru fram í skýrslunni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í nýrri skýrslu um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga er lagt til að hækka lágmarksfjölda íbúa í skrefum þannig að ekki verði færri en 1.000 íbúar í hverju sveitarfélagi í ársbyrjun 2026 og að sameiningar vegna þess verði ekki bornar undir íbúa í atkvæðagreiðslu. Þau sveitarfélög sem ekki uppfylla þessi skilyrði eru 40 talsins í dag. 

Skipuð var verkefnisstjórn af innanríkisráðherra í lok árs 2015 sem fékk það hlutverk að greina íslenska sveitarstjórnarstigið og finna tækifæri og leiðir til að styrkja það. Starfstími verkefnisstjórnar var áætlaður eitt og hálft ár og voru niðurstöður skýrslunnar kynntar á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem fór fram í dag. 

Verkefnisstjórnin setur fram tólf tillögur í skýrslunni. Ein þetta er að hækka lágmarksfjölda íbúa í þrepum. Í ársbyrjun 2020 skuli lágmarksíbúafjöldi vera 250 íbúar, 500 í ársbyrjun 2022 og 1.000 árið 2026. 

Samtals eru sveitarfélög landsins 75 og þar af eru 40 með færri en 1.000 íbúa. Fækkun sveitarfélaga vegna sameininga, verði farið eftir tillögunum, næmi því 53%. 

Önnur er að starfsemi Jöfnunarsjóðs verði tekin til gagngerrar endurskoðunar. Hluti af tekjum Jöfnunarsjóðs verði nýttur til að auðvelda sameiningu þannig að ólík fjárhagsstaða sveitarfélaga komi ekki í veg fyrir sameiningu. 

Þá er lagt til að sameiningar sveitarfélaga sem komi til vegna lögbundins lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga verði ekki bornar undir íbúa í atkvæðagreiðslu.

Hér má skoða skýrslu verkefnisstjórnar um stöðu og framtíð sveitarfélaga á Íslandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert