Vart hægt að brjóta reglurnar óvart

Garðar Steinn Ólafsson lögmaður.
Garðar Steinn Ólafsson lögmaður.

Mjög erfitt er að trúa því að Alda Hrönn Jóhannsdóttir hafi ekki haft ásetning til að brjóta gegn starfsreglum við rannsókn hennar á svokölluðu LÖKE-máli. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Garðari Steini Ólafssyni, lögmanni tveggja einstaklinga í málinu. „Að því virtu hversu skýrar reglurnar eru sé ég ekki hvernig hægt er að brjóta þær óvart.“

Garðar vísar til þess að settur hérðassaksóknari í málinu, Lúðvík Bergvinsson, hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri yfir vafa hafið að Alda Hrönn, sem þá starfaði við embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum en en í dag yfirlögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefði brotið gegn umræddum reglum en talið erfitt að sanna hvort um ásetningi hafi verið að ræða, stórfellt gáleysi eða einfalt gáleysi.

Fyrir vikið var það niðurstaða Lúðvíks að fella málið gegn Öldu Hönn niður. Alda Hrönn fagnaði niðurstöðunni í gær enda hafi kæran á hendur henni verið með öllu tilefnislaus. „Ég er enda með öllu saklaus af því sem kærandinn, sakborningur í máli sem ég kom að rannsókn á, sakaði mig um og byggði kæru sína á.“

Frétt mbl.is: Fagnar niðurstöðu í LÖKE-málinu

Garðar hefur ráðlagt skjólstæðingum sínum að vísa ákvörðun Lúðvíks til setts ríkissaksóknara í málinu en ákvörðun þeirra liggur ekki fyrir. Hann bendir á að í starfsreglunum, það er fyrirmælum embættis ríkissaksóknara um meðferð á kæru á hendur starfsmanni í lögreglu fyrir refsivert brot sem eigi stoð í lögreglulögum, sé meðal annars lögð áhersla á að lögreglumaður sem taki við slíkri kæru „gangi rækilega úr skugga“ um það hver sé vilji kærenda í málinu.

Þar segir einnig að þýðingarmikið sé að reyndur lögreglumaður, sem sé rannsóknarlögreglumaður og sérstaklega til þess kvaddur og þjálfaður, taki við kærunni. Alda Hrönn hafi hins vegar aldrei starfað sem rannsóknarlögreglumaður og sé ekki með próf frá Lögregluskóla ríkisins. Hins vegar sé hún menntaður lögfræðingur.

Verður að gera meiri kröfur til lögreglunnar

Eftir sem áður segir Garðar að Alda Hrönn hafi tekið að sér hlutverk rannsóknarlögreglumanns í umræddu máli sem orðið hafi til þess að það hafi farið af stað. „Það er vandséð hvernig Alda Hrönn getur hafa ferðast óvart til Reykjavíkur og tekið að sér hlutverk rannsóknarlögreglumanns af slysni,“ segir hann ennfremur.

Ennfremur hafi Alda Hrönn farið með rannsókn málsins í sex mánuði án þess að skrásetja rannsóknaraðferðir. þrátt fyrir skýr fyrirmæli um að taka strax skriflega lögregluskýrslu af kæranda þar sem skýrt kæmi fram hvort um væri að ræða kvörtun eða kæru hafi hún aldrei gert kæruskýrslu eða aðra lögregluskýrslu vegna rannsóknarinnar. Gáleysi væri til að mynda að gleyma sér í umferðinni en ekki að stýra ólögmætri rannsókn mánuðum saman.

„Þær afleiðingar sem brot hennar höfðu fyrir þrjá saklausa menn voru of alvarlegar til að leyfa henni að skýla sig á bak við gáleysi, vanþekkingu eða hugsunarleysi. Það verður að gera meiri kröfur til yfirstjórnar lögreglu en þær að hægt sé að stjórna rannsókn í sex mánuði á ólögmætan hátt án þess að þurfa að svara fyrir hvers vegna var ekki farið að lögum,“ segir Garðar. 

Skjóti ákvörðuninni til setts ríkissaksóknara

Garðar hefur ráðlagt skjólstæðingum sínum að skjóta ákvörðun setts héraðssaksóknara til setts ríkissaksóknara í málinu. Þeir hafa hins vegar ekki tekið ákvörðun en gera það væntanlega á næstu dögum. Erfitt gæti reynst að sanna að um ásetning hafi verið að ræða fyrir dómi þar sem þess hafi verið gætt vandlega að ekki væru til nein gögn um hina ólögmætu rannsókn á fyrstu stigum málsins.

„En ég tel að saksóknari og vonandi síðar dómari, verði að horfa til þess að einmitt sú leyndarhyggja sem birtist í því að skrásetja ekkert um rannsóknina fyrstu sex mánuði, þrátt fyrir reglur ríkissaksóknara um skyldu til annars, rennir stoðum undir það að Alda Hrönn hafi haft fullan ásetning til að fara ekki að lögum við rannsóknina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert