„Laumufarþegar“ dæmdir fyrir húsbrot

Flutningaskip Eimskipa.
Flutningaskip Eimskipa. Mynd/Eimskip

„Þetta er fjöldi mála af þessum toga á hverju ári,“ segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Fram kom í fréttum RÚV í gær að hælisleitendur reyni í auknum mæli að lauma sér um borð í flutningaskip Eimskipa í þeirri von að komast til Ameríku. Einn drengur hefði í tíu skipti verið stöðvaður við slíkar tilraunir.

Í dag kom svo fram á sama miðli að ef einhverjum tækist að lauma sér um borð og komast til Ameríku, gæti svo farið að íslenskar hafnir yrðu sviptar útflutningsleyfi.

Upplýsingafulltrúi Eimskipa hefur látið í ljós þá skoðun að stjórnvöld þyrftu að grípa til aðgerða vegna þessa, enda felist í þessu mikill kostnaður fyrir Eimskip, sem leggja þurfi niður vinnu þegar grunur leiki á að óviðkomandi einstaklingur sé í felum á svæðinu. Mikil slysahætta geti skapast.

Aukið eftirlit lögreglu

Jóhann Karl bendir á að skipin sem sigli til Ameríku komi til landsins tvisvar í mánuði. Hann segir, beðinn um að leggja mat á tíðnina, að þetta gerist ekki í hvert skipti sem skipin komi en allavega einu sinni í mánuði. Það sé allt of oft. Hann segir að öryggisdeildin hjá Eimskipi sé mjög öflug og hafi mörg hundruð myndavélar á svæðinu, þar á meðal hitamyndavélar. Hún sé með sólarhringsvakt allan ársins hring.

Lögregla eykur tíðni eftirlitsferða niður við höfn þegar Ameríkuskipin undirbúa …
Lögregla eykur tíðni eftirlitsferða niður við höfn þegar Ameríkuskipin undirbúa brottför. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hann segir að Eimskip tilkynni lögreglunni um legu skipanna hverju sinni og lögregla auki þá tíðni eftirlitsferða þegar styttist í að skipin leggi úr höfn. Hann segir þó að lögreglan vakti ekki svæðið innan girðingar, sem sé í eigu Eimskipa. „Þeim ber að fylgjast með svæðinu og þeir hafa svo samband við lögreglu ef svo ber undir.“

Sækja um hæli en vilja ekki vera á Íslandi

Aðspurður segir Jóhann Karl að yfirleitt sé um að ræða unga karlmenn sem sótt hafa um hæli á Íslandi, en virðast ekki hafa neinn áhuga á að vera hér. Þeir séu handteknir og teknar séu af þeim skýrslur. Oftast fari viðkomandi mál fyrir dóm og sé klárað á innan við einni viku. Menn séu þá dæmdir fyrir húsbrot.

Hann segir að ekki sé hægt að kæra menn fyrir að gerast laumufarþegar því menn náist áður en til þess kemur. Eftirlit lögreglu umhverfis svæðið sé því fyrirbyggjandi. Þegar lögregla sjái grunsamlegar mannaferðir, oftast menn með bakpoka, við lóð Eimskipa tali þeir við viðkomandi og vísi þeim á brott. Það hafi þó lítið að segja því mennirnir snúi aftur þegar lögregla sé á bak og burt. „Þeir vilja komast  til fyrirheitna landsins,“ segir Jóhann Karl.

Hann bendir á að kostnaður við þessar tilraunir sé mikill, bæði fyrir Eimskip, lögreglu og dómskerfið. Kalla þurfi út túlka, lögfræðinga, rannsóknarlögreglumenn og fleiri fagaðila. Óskandi væri ef hægt væri að flýta málum þeirra manna sem ekki vilja dvelja hér. „Við höfum ekki geta fengið þá í gæsluvarðhald eða þvingandi úrræði. Kannski sitjum við bara uppi með þá.“ Jóhann Karl segir að það sé stjórnvalda að koma með tillögur að lausn mála, en vandamálið sé viðvarandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert