Sagði Seðlabankann besta vin heimilanna

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði á fundi Verkalýðsfélags Akraness og VR í Háskólabíói í dag að Seðlabankinn væri besti vinur heimilanna og uppskar mikinn hlátur viðstaddra.

Seðlabankastjórinn byrjaði erindi sitt á að lýsa því yfir að honum hefði ekki gefist mikill tími til að ræða við fólkið í landinu um peningastefnuna og árangur hennar og sagði það helgast af stærðargráðu verkefna Seðlabanka Íslands sem hann telur að eigi sér ekki hliðstæðu í heiminum en þar var hann meðal annars að vísa til afnáms gjaldeyrishafta og endurheimtar eigna.

Már lýsti því yfir að vextir hér á landi væri í rauninni ekki háir, heldur væru þeir óvenjulega lágir erlendis og vísaði í því samhengi til meðalvaxta hér á landi frá árinu 2001 og meðalvaxta í Bretlandi og Bandaríkjunum frá 1870 til 2007.

„Ef skoðum langtíma raunvexti verðtryggðra ríkisskuldabréfa og alþjóðlega vexti aftur til 1985 þá sjáum við að þessir vextir hafa lækkað um allan heim, og líka hér. Ef við erum með okurvexti núna þá veit ég ekki hvað þið ætlið að kalla vextina sem voru í kringum 1985, en það er ykkar vandamál. En það er auðvitað munur, vextirnir hér hafa verið hærri og það hefur sveiflast til í hvaða mæli þeir hafa verið hærri og það byggist á efnahagsástandinu," sagði hann.

„Til dæmis núna hefur munurinn verið að aukast á ný, þessi vextir eru mjög lágir erlendis í stóru ríkjunum en töluvert hærri hér þó þeir séu miklu lægri heldur en þeir hafa verið sögulega. Það helgast af því að þrátt fyrir allt, þegar maður hlustar á tölurnar hér myndi maður halda að það væri mikið eymdarástand í landinu, en við búum við feikigott gott atvinnuástand, mikinn hagvöxt, kaupmáttaraukningu sem á enga sér líka þannig að eitthvað virðist nú vera að virka vel.”

Frá fundinum í Háskólabíói.
Frá fundinum í Háskólabíói. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá benti seðlabankastjóri á að verðtryggðir vextir íbúðalána hafi líka lækkað hér á landi. „Verðtryggðir vextir íbúðalána hafa líka lækkað þó þeir hafi ekki lækkað alveg í sama mæli vegna þess að þeir voru hér í ákveðnu kerfi þar sem þeir fylgdu ekki markaðsvöxtum en eigi að síður er það svo að þessir vextir eru lægri en nokkru sinni síðan vaxtafrelsi kom til. Seðlabanki Íslands getur bara haft áhrif á þessa vexti til skamms tíma en hefur ekki og getur ekki stýrt langtíma raunvöxtum. Til lengdar ráðast þessir vextir af framboði og eftirspurn af fjármagni, sparnaðarstigi í viðkomandi þjóðfélagi, framleiðniuppbyggingu og því um líkt.”

Besti vinur vegna aðhaldssamrar peningastefnu

„Ég ætla nú ekki að segja mikið um það sem aðrir ræðumenn hér hafa sagt, þeir sögðu svo margt, en ég ætla þó að svara því að Vilhjálmur sagði að Seðlabankinn hefði haldið því fram að laun gætu ekki hækkað um nema 2,5% til að samræmast verðbólgumarkmiðinu. Það er alrangt, ég hef aldrei sagt það, enda er það allt of lítil launahækkun til jafnaðar til að samræmast verðbólgumarkmiðinu vegna þess að það er framleiðniaukning sem er að eiga sér stað. Ég hef sagt að þetta ætti að vera 4 til 4,5%," sagði Már.

„En auðvitað hafa laun hækkað miklu meira núna upp á síðkastið og samt sem áður hefur okkur tekist að halda verðbólgunni undir marki. Það eru auðvitað tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi höfum við verið heppin, við höfum fengið búbót í gegnum ferðamennskuna en líka gífurlega bata á viðskiptakjörum og þegar þau batna þá geta laun hækkað meira en að jafnaði án þess að ógna verðbólgu," bætti hann við.

„Hin ástæðan er sú að öfugt við það sem gert var hér í gamla daga þegar laun hækkuðu voðalega mikið, þá kom stórvinur minn Jóhannes Nordal í sjónvarpið daginn eftir og sagði “við höfum fellt gengið um 15%”, þá var slakað á peningastefnunni til að taka kjaraávinninginn í burtu á kostnað mikillar verðbólgu eins og við þekkjum. Það var ekki gert núna, við höfum þvert á móti með aðhaldssamri peningastefnu tryggt það að þessari launahækkanir hafi skilað sér í auknum kaupmætti, og er það nú til vitnis um það að Seðlabankinn er að þessu leyti besti vinur heimilanna á alla kanta.“

Frétt mbl.is Verði á tánum en ekki hnjánum

Fundargestir tóku ekki vel það sjónarmið Seðlabankastjóra um að hagsmunum …
Fundargestir tóku ekki vel það sjónarmið Seðlabankastjóra um að hagsmunum heimilanna væri ekki endilega best borgið með afnámi verðtryggingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fær ekki séð að afnám verðtryggingar leysi vandamál

Már sagði jafnframt að vægi verðtryggingar hefði minnkað undanfarið en þar með sagt væri ekki sjálfgefið að ástæða væri til að banna hana. „Það má ekki gleyma því að íslensk heimili hafa lent í ýmsum vandræðum vegna fjármálalegs óstöðugleika og misgengis og annars því um líks. En bandarísk heimili hafa gert það líka og eru enn í miklu verri stöðu en íslensk heimili, þar eru engin verðtryggð lán. Þetta hefur líka gerst i Svíþjóð og Noregi á sínum tíma. Það má ekki halda það að afnám verðtryggingar leysi öll vandamál.“

Út frá sjónarhóli Seðlabankans segir Már hann geta lifað vel án verðtryggingarinnar. „Ég hef alla tíð litið svo á sjálfur að þegar við næðum meiri stöðugleika þá skapist forendur fyrir því að draga úr vægi verðtryggingar, sérstaklega á stutta enda markaðarins, og það höfum við gert, vægi verðtryggingar hefur klárlega minnkað heilt yfir og litið yfir langt tímabil. En það er ekki þar með sagt að það eigi að banna hana ef einhver metur það sem svo að honum henti betur að taka verðtryggð lán. Peningastefnan getur virkað þó það séu verðtryggð lán og Seðlabankinn getur lifað og rekið sína peningastefnu án verðtryggingar. En hvort það séu hagsmunir heimilanna að afnema verðtryggingu, það efast á stórlega um.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert