„Hvað hef ég komið mér út í?“

Hóteleigendurnir Brynja Lind Sævarsdóttir og Dimitri Ah-vane.
Hóteleigendurnir Brynja Lind Sævarsdóttir og Dimitri Ah-vane. Ljósmynd/Svanhildur Eríksdóttir

Maður þarf ekki að dvelja lengi á hótelinu á horninu, Hôtel de Square, í frönsku borginni Riom til að átta sig á því að hótelstjórinn, Brynja Lind Sævarsdóttir, er í essinu sínu í hótelrekstrinum og sinnir honum af mikilli alúð.

Sumir gestanna hafa búið á hótelinu um nokkurt skeið, maður af erlendu bergi, sem kemur með vinum sínum í kaffi á veröndinni launar henni með grænmeti úr garðinum sínum fyrir að taka honum alltaf með opnum örmum af umburðarlyndi. Hótelið er einnig með samning við sjúkrahúsið í Riom og áfrýjunardómstólinn í Riom. Sjálf býr hún og Dimitri Ah-vane, unnusti hennar, á hótelinu, ásamt prinsinum Napoleon, af Bichson Maltais kyni og eru því vakin og sofin yfir rekstrinum.

Brynju Lind óraði ekki fyrir að lífið í Frakklandi tæki þessa stefnu. Í fyrsta lagi sagðist hún aldrei hafa ætlað að koma aftur eftir að hafa komið þangað í bekkjarferðalagi 15 ára og snúið til baka með miður góðar minningar. Hún hafi hins vegar gert sér grein fyrir að Ísland væri of lítið fyrir sig og sígaunablóðið of kraumandi til þess að geta verið um kyrrt. Í öðru lagi var hótelrekstur alls ekki í kortunum, þó Brynja sé menntaður þjónn og hafi starfað við ýmis þjónustustörf, m.a. á hótelum. Hún viðurkennir jafnframt að hún hefði sennilega aldrei farið út í reksturinn, hafi hún vitað hversu erfitt þetta væri. En svona eru tilviljanirnar.

Var strax ákveðin að kaupa

Eftir að hafa unnið hér og þar sótti Brynja um vinnu rétt undir árslok 2014 á hótelinu Best Western í Chantilly nærri heimili sínu í Liancourt. „Mér fannst æðislegt að vera komin aftur heim, eftir að hafa þurft að ferðast um langan veg til og frá vinnu. Ég var ekki búin að vera lengi að störfum þegar ég þurfti að leysa þá sem var yfir morgunverðinum af eina helgi. Þá helgi gisti eigandi Hôtel du Square á hótelinu. Hún byrjaði að segja mér frá sínu litla hóteli í Clairmont Ferran og að hún væri að selja það. Ég segi um hæl að ég ætli að koma að skoða,“ segir Brynja Lind.

Þremur vikum seinna er hún komin til Riom, þá á miðri önn í fjarnámi í Háskóla Íslands. Hún hafði ekki skoðað sig lengi um þegar hún var ákveðin í að kaupa hótelið. Svarið sem hún fékk frá manninum var: „Hvað ertu að fara að gera hér?“ Hún átti svar við því. „Ég sá strax möguleika í þessu hóteli og sagði honum frá þeim, hvað ég sæi við þetta og hvað við gætum gert. Svo var ég bara komin hingað innan við hálfu ári síðar. Auðvitað hugsa ég stundum: Hvað er ég búin að koma mér út í?“

Brynja Lind byrjaði á því að starfa við hlið eiganda hótelsins til þess að athuga hvernig reksturinn gengi. „Þessi kona var hörkutól og mjög ákveðin. Við getum alveg sagt að skrattinn hafi hitt ömmu sína þegar við hittumst,“ segir hún í gamansömum tón. Í febrúar árið 2016 eignaðist Brynja hótelið. Franski draumurinn hafði verið mun smærri í sniðum, lítið kaffihús með blómahorni. Breytingarnar hentuðu þeim hins vegar vel því breytingar voru að verða á vinnustöð Dimitri innan slökkviliðs franska hersins. Hann starfar nú í Lyon, sem er það næsta sem hann komst Riom.

Fransk-íslenska leiðin

Mikil uppbygging hefur átt sér stað síðan Brynja Lind og Dimitri tóku við hótelrekstrinum, öll í takt við hvað efni hafa leyft. Frönsk leið í bland við þá íslensku enda segist hún sennilega ekki hafa lagt í þetta nema af því að hún er Íslendingur sem kann þá list að bretta upp ermar og vaða í hlutina með þá hugsun í kollinum að þetta reddist allt saman. Þau eru vakin og sofin yfir hótelrekstrinum enda nánast einu starfsmenn hótelsins og að auki búsett þar. Í hlutastarfi í eldhúsi er Lamia Quinza, ung kona af arabísku bergi brotin, sem eldar framandi mat sem gefur hótelinu ákveðna sérstöðu. Önnur sérstaða er íslenski fiskurinn á matseðlinum, sem Brynja Lind fær sendan frá Íslandi gegnum Íslending í París. Mikið gómsæti og skemmtileg blanda með arabísku réttunum.

Á hótelinu eru nú 15 herbergi til útleigu en verða 21 þegar endurbótum lýkur. Flest herbergjanna eru mjög fín og stór kostur eru þrjú fjölskylduherbergi þar sem hægt er að hýsa allt upp í sjö manns. Brynja Lind segir fá hótel bjóða upp á slíkt. „Næsta skref er að taka herbergin sem ég get ekki notað í dag og gera þau upp. Þá verð ég komin með sex herbergi til viðbótar og í þeim stíl sem ég vil hafa herbergin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert