Hvers vegna ferðu ekki í læknisfræði?

Hermína Huld er í M.Ed-námi í kennslufræði á Menntavísindasviði Háskóla …
Hermína Huld er í M.Ed-námi í kennslufræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og gerði grein fyrir niðurstöðum rannsóknar sinnar á Menntakviku HÍ í gær. Erindi hennar bar heitið: Hvaða starf klæðir þig? mbl.is/Eggert

Karlkyns sjúkraliðar finna fyrir fordómum bæði frá samstarfsfólki sínu og sjúklingum sem þeir sinna. Þeir heyra spurningar á borð við: Hvers vegna ferðu ekki frekar í læknisfræði? og fá gjarnan athugasemdir um að starf þeirra sé ekki sérlega karlmannlegt.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í rannsókn Hermínu Huldar Hilmarsdóttur, sem hún gerði í tengslum við M.Ed-nám sitt í kennslufræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún gerði grein fyrir niðurstöðunum á Menntakviku HÍ í gær.

Í rannsókninni ræddi Hermína við átta karla sem allir eru menntaðir sjúkraliðar og hafa unnið eða vinna sem slíkir. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á upplifun karla á starfsvettvangi þar sem konur eru í meirihluta.

Sjúkraliðastéttin er nær eingöngu skipuð konum, en samkvæmt upplýsingum frá Sjúkraliðafélagi Íslands eru 77 karlar á skrá þar yfir sjúkraliða. Það eru 2,55% af félagsmönnum.

Gert ráð fyrir konum í náminu

„Reynsla karlanna af náminu var almennt góð,“ segir Hermína. „Þeir voru boðnir velkomnir og allir voru ánægðir að fá þá inn í námið. En allir töluðu um að þeim hefði þótt námsefnið miðað við konur og að gert væri ráð fyrir því að allir sem menntuðu sig til sjúkraliða væru konur.“

Á vinnustöðum sínum upplifðu karlarnir ýmist að þar var ekki sérstök búningsaðstaða fyrir karlmenn eða að aðstaðan var lítil og þröng og vart boðleg. Þá lentu margir í því að vinnufatnaður var með kvensniði og passaði þeim því illa. „Þetta eru kannski lítil atriði. En þau gefa til kynna að starfið sé kvennastarf,“ segir Hermína og bætir við að einn karlanna hafi nefnt dæmi um að á vinnustað hans hefði verið mappa með upplýsingum fyrir nýtt starfsfólk og að þar hefði lesandinn verið ávarpaður sem starfsstúlka.

Hún segir að allir karlarnir hafi fundið fyrir einhvers konar fordómum. Stundum frá samstarfsfólki, einkum þeim sem lengi hefðu starfað innan heilbrigðiskerfisins. Þá var nokkuð um að sjúklingar töldu þá ekki vera starfinu vaxna og við marga var fullyrt að þeir hlytu að vera samkynhneigðir fyrst þeir hefðu valið sér þetta kvennastarf. „Þeir fá alveg að heyra það frá sjúklingum að þeim finnist óþægilegt að karlmaður sé að sinna þeim. Þá upplifðu sumir að efast var um fagþekkingu þeirra; að þeir gætu ekki haft vit á þessu, verandi karlmenn. Svo töluðu nokkrir um að ætlast hefði verið til þess að þeir ynnu meira en kvenkyns samstarfsfélagar þeirra,“ segir Hermína og tekur fram að í flestum tilvikum hafi þessir fordómar horfið eftir því sem leið á.

Hún segir þetta tengjast hugmyndum um umhyggjusamt eðli kvenna og því að karlar séu ekki færir um að sýna þá umhyggju og nánd sem þurfi í sjúkraliðastarfið.

Ekki vegna launanna

Að sögn Hermínu höfðu sumir karlanna í rannsókninni starfað í heilbrigðiskerfinu um skeið, t.d. á geðdeildum eða á sambýlum og vildu læra til starfsins. Aðrir litu á námið sem góðan grunn fyrir háskólanám í heilbrigðisgreinum.

Spurð hvaða ástæður karlarnir í rannsókninni hefðu nefnt sem ástæðu fyrir námsvalinu sagði hún að þeir hefðu allir nefnt sömu ástæðuna. „Það var fyrst og fremst vegna áhuga á starfinu. Enginn fór í þetta nám vegna launanna, þeir tóku það allir fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert