Loftgæðaskýrslan barst á föstudag

Verksmiðja United Silicon í Helguvík.
Verksmiðja United Silicon í Helguvík. mbl.is/RAX

Skýrsla með niðurstöðum úr rannsókn sem norska loftgæðastofnunin, NILU, gerði á loftgæðum við verksmiðju United Silicon í sumar barst Umhverfisstofnun á föstudag að sögn Einars Halldórssonar, sérfræðings á sviði samþættingar hjá stofnuninni.

Aðspurður segir Einar að skýrslan verði líklega opinberuð almenningi og fjölmiðlum í vikunni þegar sviðsstjóri líti svo á að það sé búið að skoða hana nægilega vel. Líklega verði það á þriðjudag eða miðvikudag. „Við erum að fara yfir hana og þegar við erum búin að rýna aðeins í hana þá verður hún gefin út.“

Niðurstöður skýrslunnar áttu að liggja fyrir um mánaðamótin ágúst/september og segir Einar svo hafa verið. Umhverfisstofnun hafi fengið niðurstöðurnar en skýrslan hafi ekki verið tilbúin fyrr en nú. Þeir hafi haft í höndunum töflur um hvernig efni þetta væru en hafi viljað fá skýrslu frá NILU sem væri aðgengilegri og með betri skýringum fyrir almenning og fjölmiðla „Við vildum að þetta væri betur sett fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert