28 hafa greinst með sárasótt

Sárasótt er kynsjúkdómur sem orsakast af bakteríu er nefnist Treponema …
Sárasótt er kynsjúkdómur sem orsakast af bakteríu er nefnist Treponema pallidum. Fyrstu einkenni sárasóttar eru sár á þeim stað sem bakterían komst í snertingu við, oftast á kynfærum. Sárasótt er greind með blóðprufu sem er hægt að láta taka hjá öllum læknum. mbl.is/ÞÖK

Aukning á fjölda tilfella af lekanda, sárasótt og HIV-sýkingu heldur áfram það sem af er ári 2017 og fjöldi klamydíutilfella er svipaður og árin á undan.

Meðalaldur sýktra er 33 ár (aldursbil 20‒59 ár). Konur greinast einnig með sjúkdóminn en tvær þeirra hafa greinst í mæðravernd. Þetta bendir til þess að sjúkdómurinn, sem fyrst og fremst hefur verið tengdur karlmönnum sem hafa mök við karla, er tekinn að breiðast til kvenna, meðal annars á barneignaraldri. Þessi alvarlegi sjúkdómur getur m.a. valdið fósturskaða.

Skjáskot af Farsóttarfréttum.

Aukning á fjölda tilfella af lekanda og HIV-sýkingu heldur áfram það sem af er ári 2017 og fjöldi klamydíutilfella er svipaður og árin á undan.

Miðað við septembermánuð hafa 19 einstaklingar greinst af HIV-sýkingu á árinu. Meðalaldur hinna sýktu er 36 ár (16‒59 ára). Af þeim sem greinst hafa á árinu er ein kona og 11 eru af erlendu bergi brotnir (58%). Áhættuhegðun tengist sýkingu hjá samkynhneigðum í sjö tilfellum, fíkniefnaneytendum í fimm tilfellum og gagnkynhneigðum í fjórum tilfellum. Óvíst er um áhættuþætti í þremur tilfellum, segir í Farsóttarfréttum embættis landlæknis.

Greindist með opna lungnaberkla

Alls hafa sex einstaklingar hafa greinst með berkla það sem af er árinu 2017. Sóttvarnalækni var tilkynnt í lok ágústmánaðar síðastliðnum um smitandi lungnaberkla sem greindust á smitsjúkdómadeild Landspítala. Um er að ræða konu á fimmtugsaldri sem býr á Suðausturlandi og hefur ekki verið á ferðalagi erlendis.

Uppruni smits er óljós en göngudeild sóttvarna og svæðislæknir sóttvarna á Suðausturlandi hafa málið til skoðunar.

Óvenjulegt er að greina opna lungnaberkla um þessar mundir meðal ungra Íslendinga án þekktra áhættuþátta. Í september sl. var tilkynnt um annan Íslending með lokaða berkla í beini sem virðist tengjast áratuga gömlu smiti.

Flestir sem hafa greinst voru ekki bólusettir

Hettusóttarfaraldur sem hófst í apríl 2015 náði hámarki í júní það ár og fjaraði síðan út vorið 2016. Ekkert hefur borið á hettusótt fyrr en einn einstaklingur greindist í maí á þessu ári og fjögur önnur tilfelli í júlí. Þeir sem greindust nú í sumar voru á aldrinum 30‒37 ára eða á svipuðum aldri og þeir sem greindust í faraldrinum 2015‒ 2016.

Fjórir af þeim fimm sem greindust nú í sumar voru óbólusettir en einn þeirra hafði fengið eina bólusetningu.

„Hvatt hefur verið til þess að allir sem fæddir eru eftir 1980 og eru óbólusettir láti bólusetja sig gegn sjúkdómnum,“ segir í Farsóttarfréttum.

Fyrstu lifrarbólgu A tilfellin hér í fjögur ár

Lifrarbólga A er nú orðin sjaldgæf á Íslandi. Þessi sjúkdómur var mjög algengur fram á miðja 20. öld hér á landi en þá dró mjög úr nýgengi hans. Undanfarin fjögur ár hefur enginn greinst með lifrarbólgu A hér á landi en á þessu ári hafa fjórir einstaklingar greinst með sjúkdóminn, þrír af þeim eru karlmenn sem hafa haft kynmök við aðra karlmenn. Tengjast þau tilfelli faraldri af völdum lifrarbólgu A sem gengur yfir í Evrópu um þessar mundir einkum meðal karlmanna sem hafa kynmök við karlmenn.

Lifrarbólga A smitast um munn með saurmenguðum mat eða vökva og engin meðferð er til við sjúkdómnum. Besta fyrirbyggjandi meðferðin við lifrarbólgu A er bólusetning auk þess að gæta að almennu hreinlæti við inntöku matar og vökva. Sóttvarnalæknir hvetur alla sem eru mikið á ferðalögum erlendis og sérstaklega karlmenn sem stunda kynlíf með karlmönnum að láta bólusetja sig.

Lifrarbólga A er yfirleitt hættulítill sjúkdómur sem lagast án meðferðar en getur í stöku tilfellum valdið alvarlegum lifrarskemmdum. Hægt er að fá bólusetningu gegn lifrarbólgu A til dæmis á heilsugæslustöðvum. Til að fá bestu vörn þarf að gefa tvær sprautur með 6 mánaða millibili. Bólusetningin veitir vörn fyrir lífstíð.

Í ársbyrjun 2016 hófst hér á landi opinbert átak gegn lifrarbólgu C sem mun standa yfir í þrjú ár. Landspítala var falin framkvæmd verkefnisins en aðalsamstarfsaðili er Sjúkrahúsið Vogur. Yfirumsjón með verkefninu hefur sóttvarnalæknir í umboði heilbrigðisráð-herra. Um 600 einstaklingar hafa nú hafið lyfjameðferð sem er um 70–80% þeirra sem taldir eru smitaðir hér á landi. Á fyrsta starfsári átaksins hafa um 95% þeirra sem klára meðferðina læknast. Meðferðin stendur í 12 vikur og aukaverkanir eru nær engar eða vægar, sem er mikil breyting frá þeirri meðferð sem áður var boðið upp á, segir enn fremur í Farsóttarfréttum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert