Auglýsing um friðlýsingu undirrituð

Friðland Þjórsárvera verður stækkað umtalsvert.
Friðland Þjórsárvera verður stækkað umtalsvert. mbl.is/Rax

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag auglýsingu um friðlýsingu vegna stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum. Undanfarin ár hefur verið unnið að stækkun friðlandsins til samræmis við samþykktir Alþingis á grundvelli náttúruverndaráætlunar og verndar- og orkunýtingaráætlunar.

Svæðið var friðlýst árið 1981 og náði þá til 375 ferkílómetra. Með stækkuninni nú verður friðlandið í Þjórsárverum alls 1.563 ferkílómetrar. Fylgir friðlýsingin, sem nú hefur verið undirrituð, því samkomulagi sem náðist með hlutaðeigandi sveitarstjórnum vorið 2013 um afmörkun hins friðlýsta svæðis og þá friðlýsingarskilmála sem gilda eiga um það svæði. Undirbúningur friðlýsingarinnar var unnin á grundvelli náttúruverndaráætlunar 2009-2013 og gildandi verndar- og orkunýtingaráætlunar. Friðlýsingin gekk hins vegar ekki eftir á þeim tíma.

Þann 20. júní síðastliðinn hélt ráðherra fund með sveitarfélögunum þar sem kynnt voru áform um að taka upp að nýju fyrirhugaða stækkun friðlandsins með sömu friðlýsingarskilmálum og mörkum eins og gert var ráð fyrir vorið 2013. Sveitarfélögunum var veittur þriggja mánaða frestur, með bréfum frá 3. júlí 2017, til að gera athugasemdir við friðlýsingarskilmála um stækkað friðland en samhliða því fór málið í almennt umsagnarferli á vef ráðuneytisins.

Enginn sem veitti umsögn lagðist gegn friðlýsingunni.
Enginn sem veitti umsögn lagðist gegn friðlýsingunni.

Fresturinn rann út þann 3. október síðastliðinn og í heild bárust ráðuneytinu átta umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppi, Vini Þjórsárvera, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landvernd og Fuglavernd. 

Enginn þeirra sem veitti umsögn um málið leggst gegn friðlýsingunni en ábendingar komu m.a. fram um fyrirhuguð mörk svæðisins, þ.e. að svæðið ætti að vera stærra, segir í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Ráðherra hefur hins vegar ákveðið að þeir skilmálar sem samkomulag var um vorið 2013 verði óbreyttir ef frá eru taldar nauðsynlegar lagfæringar á tilvísunum í ný náttúruverndarlög sem tóku gildi í nóvember 2015.

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Í kjölfar friðlýsingarinnar mun Umhverfisstofnun hefja vinnu við undirbúning að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið í samvinnu við sveitarstjórnir á svæðinu. Jafnframt mun samráð vera haft vegna ráðstöfunar skilgreinds fjárframlags ríkisins til svæðisins, í samræmi við samkomulag sem gert var árið 2013.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert